Barið á virkinu í Efstaleiti
Viðbrögð RÚV við niðurstöðu eigin siðanefndar, að einn starfsmanna þess hafi gerst „alvarlega“ brotlegur við siðareglur snúa fyrst og síðast að trúverðugleika RÚV.
Eitt þeirra mála sem fylgst er með hér á síðunni snýr að ágreiningi Samherja við fréttastofu ríkisútvarpsins og seðlabankann. Skilgreina má málið sem hluta „nýrra stjórnmála“. Ekki er tekist á um hugmyndir heldur fyrirtæki og einstaklinga. Þessar deilur snerta útlaga- eða útilokunaráráttuna. Það eigi einfaldlega að loka á þá sem flytja óþægileg viðhorf eða skoðanir. Það þykir til dæmis goðgá þegar Samherji nýtir sér aðferð nútímafjölmiðlunar til að koma eigin sjónarmiðum á framfæri af því að hann telur sig ekki njóta sannmælis hjá fréttastofu ríkisútvarpsins (RÚV). Fréttamenn þar standa með sínum manni, Helga Seljan, og margir fleiri fjölmiðlamenn leggja honum lið. Þá vill Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri auka lögvernd embættismanna bankans eftir gagnrýni Samherja.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarnans, birtir ádeilugrein á Samherja mánudaginn 26. apríl sem hefst á reiði í garð mbl.is vegna þess að um helgina birtist þar „stór auglýsingaborði“ með orðunum: Ábyrgðarleysi í Efstaleiti. Þar kynnir Samherji nýtt myndband til að árétta sjónarmið sín og kynna ályktun sína eftir niðurstöðu siðanefndar RÚV.
Ritstjóri Kjarnans gagnrýnir ekki aðeins birtingu auglýsingaborðans heldur vegur að trúverðugleika mbl.is vegna þess að „stærstu eigendur útgáfunnar eru aðilar tengdir útgerð og hún heldur úti umfangsmikilli útgáfustarfsemi um sjávarútveg bæði á vef og í prenti þar sem sjávarútvegsfyrirtæki kaupa mikið magn auglýsinga“. Eins og kunnugt er telja talsmenn RÚV að fréttastofa þess sé hafin yfir gagnrýni fyrir hagsmunagæslu vegna þess að skattgreiðendur greiða um fimm milljarða á ári til standa straum af starfseminni í Efstaleiti.
Viðbrögð RÚV við niðurstöðu eigin siðanefndar, að einn starfsmanna þess hafi gerst „alvarlega“ brotlegur við siðareglur snúa fyrst og síðast að trúverðugleika RÚV. Forstjóri BBC sagði við starfsmenn breska ríkisútvarpsins forstjórastólinn síðsumars 2020: „Viljið þið verða skoðanmyndandi dálkahöfundar eða baráttumenn málstaðar á samfélagsmiðlum ber að virða slíka ákvörðun en þá eigið þið ekki að starfa hjá BBC.“ Hann bar hagsmuni BBC fyrir brjósti.
Í umræðum um þetta siðareglumál RÚV kom fram á dögunum að útvarpsstjóri hefði veitt starfsmanni RÚV undanþágu frá ákvæði í siðareglunum. Það varð ekki til þess að auka trúverðugleika RÚV.
Siðareglur snúa í raun að einstaklingum og framgöngu þeirra. Hjá því verður til dæmis ekki komist eigi þingmaður eða fréttamaður hlut að máli að fjallað sé um einstaklinga. Að því er varðar seðlabankann sagði Ásgeir Jónsson bankastjóri í samtali við Stundina föstudaginn 23. apríl að þar hefði Samherji ekki átt að fara persónulega „á eftir“ fólki heldur væri „hægt að berja á þessari stofnun eða mér sem framkvæmdastjóra hennar ... Það má alveg berja á þessari stofnun, hún er virki, en það má ekki gera það svona persónulega gegn fólki,“ sagði Ásgeir.
Vandi ríkisútvarpsins nú er að barið er á virkinu í Efstaleiti vegna þess hvernig ráðamenn þar bregðast við niðurstöðu eigin siðanefndar.