3.1.2020 9:58

Baráttu InDefence fagnað á tímamótum

Barátta InDefence var ekki aðeins gegn ríkisstjórnum Bretlands og Hollands hún sneri einnig að íslensku ríkisstjórninni og stefnu hennar.

Þess er minnst núna að 10 ár eru liðin frá því að forvígismenn samtakanna InDefence gengu á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og afhentu honum undirskriftir 56 þúsund Íslendinga þar sem skorað var á hann að staðfesta ekki lög um Icesave-samningana sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar gerðu við Breta og Hollendinga.

Þór Whitehead, fyrrv. prófessor í sagnfræði, sagði í grein í Morgunblaðinu í gær (2. janúar): „... óeigingjörn barátta InDefence-hópsins reisti við heiður þjóðarinnar gagnvart umheiminum. Íslendingar eiga forvígismönnum hópsins mikla þökk að gjalda og framtaks þeirra verður minnst á meðan þjóðin telur það nokkurs virði að fá ráða mikilvægustu hagsmunamálum sínum“.

519107Myndin birtist á mbl.is og sýnir forvígismenn InDefence á leið með undirskriftalista á fund Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum 2. janúar 2010.

Um leið og tekið er undir þessi orð Þórs skal vitnað í leiðara sem Hörður Ægisson, markaðsritstjóri Fréttablaðsins, í dag (3. janúar). Þar segir:

„Íslendingar – stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur – hafa náð ótrúlegum efnahagslegum árangri á liðnum áratug sem við megum vera stolt af. Lánshæfismat ríkisins, sem hefur hækkað hraðar en dæmi eru um í fjármálasögunni, er komið í A-flokk, vextir hafa aldrei verið lægri samhliða því að verðbólga hefur haldist lág, skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 600 milljarða á fimm árum, erlend fjárfesting hefur stóraukist, Seðlabankinn ræður yfir stórum óskuldsettum gjaldeyrisforða og erlend staða þjóðarbúsins er á pari við stöndugustu ríki í Evrópu. Launþegar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Kaupmáttur launa hefur aukist um liðlega 50 prósent sem er meira en þekkist í nokkru öðru ríki sem við berum okkur helst saman við.

Óhætt er að fullyrða að enginn óbilaður maður hefði spáð fyrir um það í ársbyrjun 2010 að þjóðarbúið stæði á jafn sterkum grunni tíu árum síðar. Það er hins vegar reyndin – og á þeim tímamótum er ágætt að hafa það hugfast að þetta gerðist ekki allt af sjálfu sér.“

Lokaorðin hjá Herði „þetta gerðist ekki allt af sjálfu sér“ minna á að hvorki var sjálfgefið að menn tækju höndum saman undir merkjum InDefence og ynnu málstað sínum víðtæks stuðnings né að hér settust þeir við stjórnvölinn sem leiddu þjóðina með ofangreindum árangri.

Barátta InDefence var ekki aðeins gegn ríkisstjórnum Bretlands og Hollands hún sneri einnig að íslensku ríkisstjórninni og stefnu hennar. Ríkisstjórninni undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur voru ekki aðeins mislagðar hendur í Icesave-málinu, hún var einnig á rangri leið í ESB-málinu, stjórnarskrármálinu og kvótamálum. Eftir að þjóðin hafnaði Jóhönnu og Steingrími J. í kosningum vorið 2013 hófst ný og árangursrík vegferð þjóðarinnar.

Þegar litið er til baka og þess sem gerst hefur frá 2013 er ekki hjá því komist að minna á að Samfylkingin og Viðreisn fylgja sömu stefnu í ESB-málum og kvótamálum og Jóhönnustjórnin hafði og gæla við svipaðar hugmyndir í stjórnarskrármálinu. Í stjórnmálum gerist ekkert af sjálfu sér. Einn stjórnmálaflokkur hefur verið þungamiðjan í sókn þjóðarinnar frá 2013: Sjálfstæðisflokkurinn. Stjórn fjármála og efnahagsmála hefur hvílt á honum og sérstaklega formanni hans, Bjarna Benediktssyni.