4.7.2017 16:22

Baráttan við lúpínuna

Lúpínan á vissulega rétt á sér á vissum svæðum. Það þarf að setja henni hæfilegar skorður og snúast strax til varnar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, höfundur fjölmargra vandaðra árbóka Ferðafélags Íslands og eindreginn umhverfisverndarsinni, hefur nokkrum sinnum varað við útbreiðslu lúpínunnar  og gerir það enn á ný í rökfastri grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin hefst á þessum orðum:

„Í aldarþriðjung hefur blasað við að dreifing alaskalúpínu hérlendis stefndi gróðurríki landsins í mikla hættu, sem erfitt gæti reynst að sporna við. Þessi stórvaxna og blómfagra tegund sem flutt var til landsins í góðri trú frá Alaska árið 1945 hefur sem ágeng planta hérlendis reynst vargur í véum. Eftir að hafa komið sér fyrir og hafið fræmyndun dreifist hún hratt um auðnir og gróið land og gjörbreytir ásýnd þess og aðstæðum fyrir náttúrulega gróðurframvindu. Frá aldamótum hefur verið heimilt að banna að flytja inn og rækta framandi plöntutegundir en þeim ákvæðum hefur lítið verið fylgt eftir í reynd. Enn framleiðir Landgræðsla ríkisins lúpínufræ til dreifingar undir merkjum landgræðslu. Skógræktin og tengdir aðilar hafa lengi átt stóran hlut í dreifingu lúpínu um landið og með því skellt skollaeyrum við aðvörunum og augljóst vaxandi hættu. Þegar þannig er staðið að málum er skiljanlegt að almenningur sé ráðvilltur, og almenn leiðsögn og fræðsla um gróðurríkið er þess utan af skornum skammti.“

Ég á góða vini sem hafa mikla trú á lúpínunni. Hún hefur reynst þeim vel við uppgræðslu lands í þeirra eigu. Má segja að ævintýralegur árangur hafi náðst hjá þeim og gjörbreytt landgæðum til betri vegar.

Að sjálfsögðu var engin tilviljun að lúpínan var flutt til landsins. Í grein sinni fer Hjörleifur yfir landið og bendir á breytingar á yfirbragði þess vegna óæskilegrar útbreiðslu lúpínunnar. Í grein sinni segir Hjörleifur:

„Ljóst er að talsmenn Landgræðslu ríkisins gera sér nú, a.m.k. í orði, grein fyrir neikvæðum áhrifum alaskalúpínu á umhverfið (sjá heimasíðu LR, 22. jan. 2016). Þessu þarf að fylgja eftir með raunverulegri stefnubreytingu þar sem lúpínan verði tekin af lista stofnunarinnar sem æskileg landgræðsluplanta og hætt verði að nýta hana sem slíka. Áframhaldandi hlýnun hérlendis ýtir enn frekar undir útbreiðslu lúpínunnar, þar sem allt miðhálendið utan jökla getur fyrr en varir orðið vettvangur hennar, sé ekki rönd við reist.“

Með grein Hjörleifs í huga tók ég fáeinar myndir í morgun af lúpínu í Öskjuhlíðinni. Hún stingur sér niður víða og á í raun ekkert erindi í Öskjuhlíðina.

 Myndin er tekin í skógarstíg skammt hjá Sóllandi, duftreit Fossvogskirkjugarðs. Þarna stingur lúpína sér niður á æ fleiri stöðum.

Myndin hér fyrir ofan er tekin við sama skógarstíg og efsta myndin.  

Hér er horft yfir Hafnarfjarðarveginn. Þessi hluti Öskjuhlíðarinnar, stundum kölluð Litla-Öskjuhlíð, er allur þakinn lúpínu sem eykur útbreiðslu sína ár frá ári. 
Þessi mynd sýnir hlíðina rétt ofan við Háuhlíð. Lúpínan færir sig ár eftir ár nær götunni. Trjágróðurinn þarna er allur sjálfsprottinn á undanförnum árum. Þarna var áður gróðurlaust grýtt svæði. Lúpínan fælir fólk frá að fara um svæðið og er þarna eins og illgresi.