20.7.2023 9:48

Bankakerfið í stríði við Farage

Í Bretlandi er nú hart sótt að Dame Alison Rose, forstjóra NatWest-samsteypunnar, fyrir að Coutts-bankaútibúið  neitaði að eiga viðskipti  ESB-andstæðinginn Nigel Farage.

Hneyksli í bankaheiminum taka á sig ýmsar myndir. Hér glíma stjórnendur Íslandsbanka við afleiðingar forkastanlegrar hegðunar starfsmanna bankans við sölu á hlutabréfum í bankanum 22. mars 2022. Bankastjórinn hefur sagt af sér og formaður bankaráðsins gefur ekki kost á sér til endurkjörs.

Í Bretlandi er nú hart sótt að Dame Alison Rose, forstjóra NatWest-samsteypunnar, sem á Coutts-bankaútibúið sem neitaði að eiga viðskipti við breska stjórnmálamanninn og ESB-andstæðinginn Nigel Farage. Spjótin beinast ekki aðeins gegn bankanum heldur einnig breska ríkisútvarpinu BBC. Breska fjármálaeftirlitið lætur sig málið varða. Brexit-foringinn Farage segir að sér sótt vegna stjórnmálaskoðana sinna og lífsviðhorfa.

Í The Telegraph í dag (20. júlí) segir að Dame Alison hafi setið við hliðina á Simon Jack, viðskiptaritsjóra BBC, í góðgerðarkvöldverði í tengslum við BBC daginn áður en Jack birti frétt þar sem fullyrt var að bankaviðskiptum við Farage hefði verið hætt af „viðskiptalegum“ ástæðum. Hvorki NatWest né BBC svöruðu The Telegraph þegar leitað var staðfestingar á réttmæti fréttarinnar.

Nigel Farage sagði hins vegar við blaðið: „Þau eru öll hluti af þessari sömu stórborgarelítu, Remainer-klúbbnum.“ Orðið remainer er notað í Bretlandi yfir þá sem vildu að landið yrði áfram í ESB.

TELEMMGLPICT000343031377_16896961981330_trans_NvBQzQNjv4BqpVlberWd9EgFPZtcLiMQf0Rf_Wk3V23H2268P_XkPxcDame Alison Rose,  forstjóri NatWest-samsteypunnar. 

Suella Braverman innanríkisráðherra sagði „óhugnanlegt“ að bankar settu einstaklinga á svartan lista á þennan hátt og Rishi Sunak forsætisráðherra lofaði að gripið yrði til aðgerða gegn bönkum sem afskrifuðu viðskiptavini fyrir að nýta sér réttinn til málfrelsis. Segir The Telegraph að vænta megi lagafrumvarps um að bönkum sé óheimilt að fella niður viðskipti við einstaklinga vegna skoðana þeirra eða sannfæringar.

Breska ríkið á 39% í NatWest bankasamsteypunni eftir að henni var bjargað frá falli af ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins í bankahruninu 2008. Þingmenn breska Íhaldsflokksins taka undir með ráðherrum sínum og ganga nú fram fyrir skjöldu og krefjast afsagnar Dame Alison. Coutts-útibúið sérhæfir sig í einkabankaþjónustu við vel stæða viðskiptavini.

Í frétt á vefsíðu BBC eftir Simon Jack um lokunina á Farage voru heimildarmennirnir sagðir hafa „haft kynni“ af ákvörðun Coutts og honum hefði verið hafnað af því að fjármál hans næðu ekki þeim „þröskuldi“ sem Coutts setti.

Bankaútibúið birti yfirlýsingu að morgni 20. júlí og sagði að vegna reglna um bankaleynd gæti bankinn ekki svarað að fullu. Það væri ekki léttbært að ákveða að loka reikningum viðskiptavina og þá yrði að taka tillit til ýmissa atriða, þar á meðal fjárhagslegra, orðspors og laga og reglna. Reikningum væri ekki lokað eingöngu vegna mats á lögmætum stjórnmálaskoðunum eða persónulegum viðhorfum. Farage hefði verið boðið að stofna til viðskipta annars staðar innan NatWest-samsteypunnar. Þetta segir Farage rangt.

Nigel Farage hefur birt 40 bls. greinargerð um samskipti sín við Coutts.

Enn sér enginn fyrir þessu hitamáli sem beinir enn á ný kastljósi allra fjölmiðla á Nigel Farage. Hann vekur eins og áður heitar tilfinningar í Bretlandi.

.