7.6.2020 10:09

Bandaríkjamenn í Nuuk

Bandaríkjastjórn opnar formlega ræðisskrifstofu í Nuuk, höfuðborg Grænlands, miðvikudaginn 10. júní.

Bandaríkjastjórn opnar formlega ræðisskrifstofu í Nuuk, höfuðborg Grænlands, miðvikudaginn 10. júní. Sung Choi er aðalræðismaður en frá því í maí í fyrra hefur hann verið með annan fótinn í Nuuk við að undirbúa starfsemi ræðisskrifstofunnar sem verður til húsa í höfuðstöðvum danska hersins, Arktisk Kommando, í Nuuk.

Þegar Tine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana, var spurð um þessa lausn á húsnæðismálum ræðisskrifstofunnar sagði hún við grænlenska ríkisútvarpið, KNR, að Danir veittu nánum bandamönnum sínum aðstoð eins og þeir aðstoðuðu Dani. Danska ríkisstjórnin hefði samþykkt að ræðisskrifstofan gæti fyrst um sinn verið með aðsetur undir sama þaki og Arktisk Kommando.

Arktisk_kommandoHér verður bandaríska ræðisskrifstofan til húsa.

Við val á samastað fyrir skrifstofuna ber að gæta strangra krafna bandaríska utanríkisráðuneytisins um öryggi starfsstöðva þess um heim allan. Í Reykjavík hafa menn kynnst miklum öryggisráðstöfunum í kringum nýja sendiráðsbyggingu Bandaríkjanna við Engjaveg. Fréttir herma að kostnaður við að fullnægja öllum öryggiskröfunum skipti milljörðum króna.

Bandaríkjamenn héldu úti ræðisskrifstofu í Nuuk frá 1940 til 1953. Íslendingar opnuðu ræðisskrifstofu sína í Nuuk árið 2013, hafði þá ekkert ríki haft stjórnarerindreka með fast aðsetur í Grænlandi í 60 ár.

Samskipti Bandaríkjamanna, Grænlendinga og Dana hafa verið mjög til umræðu síðan 15. ágúst 2019 þegar fréttir birtust í Bandaríkjunum um að Donald Trump forseti hefði áhuga á að kaupa Grænland. Daginn eftir sagði Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, Naalakkersuisut, að Grænland væri ekki til sölu. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði umræður um þetta „fráleitar“. AP-fréttastofan vísaði 24. ágúst 2019 í bréf frá bandaríska utanríkisráðuneytinu til þingsins um að Bandaríkjastjórn hefði áform um að opna ræðisskrifstofu á Grænlandi.

Í apríl 2020 bárust fréttir um að Bandaríkjastjórn hefði ráðstafað 12,1 milljón dollara til að styrkja ýmis verkefni í tilefni af því að ræðisskrifstofan yrði opnuð.

Samhliða þessari þróun magnast umræður meðal fræðimanna og í bandarískum hugveitum um að Bandaríkjastjórn verði að móta nýja og skýrari stefnu í norðurslóðamálum og þar á meðal gagnvart Grænlandi og Íslandi eins og sjá má á þessari grein sem birtist á vefsíðunni vardberg.is laugardaginn 6. júní og í dag (7. júní) birtist þar önnur grein um svipað efni

Miklar umræður eru um samband Dana og Grænlendinga meðal stjórnmálamanna og fræðimanna í Danmörku. Í ár lýkur gildistíma norðurslóðastefnu Dana sem kom til sögunnar árið 2011 og er unnið að því að semja stefnu fyrir næsta áratug.