Bandamenn gegn EES
Þegar EES-lög eru í mótun hafa Íslendingar sama rétt og allir aðrir sem undir lögin eru settir til að koma sjónarmiðum sínum og séróskum á framfæri.
Kenningin um að Íslendingar hafi ekkert um efni EES-lagasetningar að segja er ein af lygunum sem andstæðingar EES-samningsins nota hvort sem þeir vilja aðild að ESB eða hverfa rúm þrjátíu ár aftur í tímann með úrsögn úr EES.
Þegar EES-lög eru í mótun hafa Íslendingar sama rétt og allir aðrir sem undir lögin eru settir til að koma sjónarmiðum sínum og séróskum á framfæri, sé það gert á tímabæran hátt með góðum rökum og markvissum málflutningi skilar það árangri. Sé ekkert gert næst enginn árangur á þessu sviði frekar en öðrum.
Í Morgunblaðinu í dag (12. apríl) segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður ESB-aðildarflokksins Viðreisnar, að klofningur innan Sjálfstæðisflokksins komi í veg „fyrir að ræða megi hvort unnt sé að taka ný skref í fjölþjóðasamvinnu til þess að styrkja samkeppnishæfni Íslands í nýrri heimsmynd“.
Þetta er alröng fullyrðing og í raun stórundarleg frá fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins sem sagði skilið við flokkinn af því að hún vildi ekki taka þátt í umræðum þar um ólík viðhorf til Evrópusamstarfsins og sætta sig við niðurstöðu meirihlutans. Þess í stað stofnaði hún einstefnuflokk í ESB-málum sem nærist á því að höggva í Sjálfstæðisflokkinn.
Sú áreitni birtist í grein eftir stofnanda Viðreisnar í Morgunblaðinu í dag, Benedikt Jóhannesson, þar sem hann gengur einmitt til liðs við Arnar Þór Jónsson héraðsdómara sem telur að EES-aðildin vegi að fullveldi þjóðarinnar. Telur Benedikt að dómarinn færi góð rök fyrir því að „við eigum að stíga skrefið alla leið inn í Evrópusambandið sem fullvalda þjóð meðal þjóða“.
Kortið sýnir EES-ríkin eftir nað Bretar sögðu skilið við samstarfið. ESB-ríkin eru dökkblá. EES/EFTA og Schengen-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eru dökkgræn. EFTA- og Schengen-ríkið Sviss er rautt. Guli liturinn nær til ríkja í aðildarferli að ESB. Bretland er ljósblátt utan EFTA, ESB og Schengen.
Þriðja greinin í þessa veru í Morgunblaðinu í dag er eftir Hauk Ágústsson, fyrrv. framhaldsskólakennara, sem heldur því ranglega fram að EES-samningurinn hafi „breyst gífurlega frá því að Íslendingar gerðust aðilar að honum“ fyrir rúmum aldarfjórðungi. EES-samningurinn er eins núna og hann var við undirritun hans. Engu hefur verið breytt og ekkert bæst við hann. Aðildin að sameiginlega EES-markaðnum kallar hins vegar á að þar gildi sameiginlegar reglur, sumar þarf að lögfesta, aðrar er samkvæmt stjórnarskránni unnt að fullgilda með þingsályktun.
Nú hafa EES-andstæðingar fundið það upp að afgreiðslan með þingsályktun sé í raun aðför að forseta Íslands, gildi ályktunarinnar sé ekki háð undirskrift hans og þess vegna sé ekki unnt að safna undirskriftum meðal almennings til að knýja forseta til að hafna ákvörðun alþingis. Að lögfróðir menn skuli smíða samsæriskenningar af þessu tagi og halda þeim fram opinberlega er undrunarefni en staðreynd samt. Haukur Ágústsson trúir kenningunni eins og fram kemur í grein hans þegar hann segir:
„Þrátt fyrir andstæðan vilja umbjóðenda sinna, þegnanna, nýttu stimplararnir [alþingismenn] meirihluta sinn og hleyptu málinu [þriðja orkupakkanum] í gegn sem „ályktun“, sem þurfti ekki undirskrift forseta, sem því hafði ekki tök að meta stöðuna í ljósi þjóðarviljans.“
Lengsta málþóf sögunnar á alþingi varð vegna þriðja orkupakkans. Hann var afgreiddur með þingsályktun vegna þess að samþykkt hans krafðist ekki lagasetningar. Fyrir liggja fjölmargar lögfræðilegar athuganir á vegum alþingis um hvernig best sé að tryggja aðkomu alþingismanna að afgreiðslu EES-mála. Að láta eins og þingmenn og sérfræðingar þingsins hafi ekki velt aðferðum við það gaumgæfilega fyrir sér er blekking.
Undirskriftasöfnun vegna þriðja orkupakkans misheppnaðist, forsetaframbjóðanda sem setti andstöðu sína við þriðja orkupakkann var hafnað. Að stuðningsmenn ESB-aðildar og andstæðingar EES-aðildar vegna þriðja orkupakkans sameinist nú í gagnrýni á EES-samninginn sýnir aðeins að deilur um þennan magnaða samning sem gjörbreytti íslensku þjóðlífi og stuðlaði að miklum framförum taka á sig sérkennilegar myndir.