Bananaveldi klerkanna
Sérfræðingur um írönsk málefni sem rætt var við í BBC eftir drápið á Soleimani sagði að menn mættu ekki gleyma því að Íran væri ekki „bananalýðveldi“.
Erlendir fréttamenn segja að snemma laugardagskvöldið 11. janúar hafi hundruð námsmanna safnast saman við Amir Kabir háskólann í Teheran, höfuðborg Írans, til að votta þeim virðingu sem fórust við Teheran-flugvöll aðfaranótt miðvikudags 8. janúar. Úkraínsk farþegavél með 176 um borð á leið til Kænugarðs var skotin niður skömmu eftir flugtak. Tveimur dögum síðar viðurkenndu írönsk stjórnvöld að um slysaskot flughers Írans hefði verið að ræða þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar um hið gagnstæða.
Aðgerðir námsmannanna snerust fljótlega í mótmæli gegn eigin stjórnvöldum og hrópuðu þeir skammaryrði eins og „lygarar“ um þau. Krafist var afsagna og málsóknar gegn þeim sem grönduðu vélinni og reyndu síðan að hylma yfir ódæðið. Þá voru rifin niður spjöld með myndum af Qassem Soleimani sem Bandaríkjamenn drápu í Bagdad 3. janúar og síðan varð píslarvottur í Íran. Lögregla braut upp mannsöfnuðinn en sérstaka athygli vakti að sagt var frá mótmælunum í íranska ríkissjónvarpinu og að námsmennirnir hefðu gert hróp að ríkisstjórn landsins.
Frá mótmælum námsmanna í Teheran 11. janúar 2019.
Þá bar til tíðinda að Rob Macaire, breski sendiherrann í Teheran, var handtekinn og sakaður um að hvetja til mótmæla. Hann var á leið frá rakarastofu. Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sagði þetta forkastanlegt brot á alþjóðalögum og íranska stjórnin yrði að gera upp við sig hvort líta bæri á hana sem „úrhrak“ eða hún tæki þátt í að lægja öldur með eðlilegum alþjóðlegum samskiptum.
Sérfræðingur um írönsk málefni sem rætt var við í BBC eftir drápið á Soleimani sagði að menn mættu ekki gleyma því að Íran væri ekki „bananalýðveldi“. Þar kæmu æðstu stjórnendur ríkisins saman, ræddu mál og kæmust að niðurstöðu, þess vegna þyrfti enginn að óttast að eitthvað gerðist að óathuguðu máli.
Ekkert sem gerst hefur frá 3. janúar í Íran styður þessari fullyrðingu nema íranskir ráðamenn hafi gjörsamlega misst stjórn á sér. Þeir litu á það sem stuðning við sig að milljónir manna tóku þátt í útför Soleimanis – þar tróðust þó tugir manna undir og viðburðurinn breyttist í martröð. Nú rífa íranskir námsmenn niður veggspjöld með mynd af Soleimani.
Því var harðneitað að írönsk flaug hefði grandað farþegavélinni. Í tvo sólarhringa laug flugmálastjóri Írans blákalt fyrir framan fréttamenn. Loks aðfaranótt 11. janúar var viðurkennt að íranski herinn hefði átt hlut að máli - nú er sagt að sá sem skaut hefði ekki getað náð sambandi við yfirmann sinn þegar hann greindi loftfar á leið til sín. Er ástæða til að trúa því? Voru ef til vill gefin fyrirmæli á æðri stöðum um að skjóta á vélina?
Hvar getur þetta gerst nema í bananalýðveldi, jú klerkaveldi. Í 40 ár hefur íranska þjóðin mátt búa við þessa stjórnarhætti og nú segjast klerkarnir ætla að framleiða kjarnorkuvopn með aðstoð Rússa og Kínverja auk Norður-Kóreumanna.