Bálreiðir Frakkar
Þegar fréttir um kafbátasamninginn bárust fór allt á annan endann í París og föstudaginn 17. september kallaði forseti Frakklands sendiherra sína í Canberra og Washington heim.
Árið 2016 sömdu Ástralar við Frakka um smíði á 12 kafbátum. Smíði kafbátanna hefur tafist og kostnaður við hana hækkað. Fimmtudaginn 16. september 2021 var tilkynnt að Ástralar hefðu rift samningnum við Frakka og samið við Bandaríkjamenn og Breta um smíði átta kjarnorkuknúinna hátækni-kafbáta auk þess sem ríkin þrjú Ástralía, Bretland og Bandaríkin hefðu stofnað til formlegs þríhliða varnarsamstarfs, AUKUS.
Þegar fréttir um þetta bárust fór allt á annan endann í París og föstudaginn 17. september kallaði forseti Frakklands sendiherra sína í Canberra og Washington heim. Þetta hefur aldrei fyrr gerst milli Frakka og Bandaríkjamanna. Samband Ástrala og Frakka hefur áður orðið mjög slæmt vegna kjarnorkuvopnatilrauna Frakka á Kyrrahafi.
Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka.
Jean-Yves Le Drian , utanríkisráðherra Frakka, sakar Ástrala og Bandaríkjamenn um „tvöfeldni, trúnaðarbrest og lygar“.
Ráðherrar í stjórn Ástralíu reyna að lægja öldurnar, þeir hafi verið í góðri trú. Simon Birmingham fjármálaráðherra sagði sunnudaginn 19. september að Frökkum hefði verið skýrt frá stöðu málsins „eins fljótt og unnt var áður en frá því var skýrt opinberlega“. Peter Dutton varnarmálaráðherra segir að Ástralar hafi veið „hreinskilnir, opnir og heiðarlegir“. Scott Morrison forsætisráðherra fullyrðir að franska ríkisstjórnin hafi vitað um „djúpstæða og alvarlega fyrirvara“ áströlsku stjórnarinnar, frönsku Attack-kafbátana standist strategískar kröfur Ástrala sem taki ákvarðanir sínar í samræmi við strategíska þjóðarhagsmuni sína.
Frakkar kölluðu sendiherra sinn ekki heim frá London. Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði þátttöku Breta í AUKUS-samstarfinu til marks um „tækifærismennsku“. Bretar vildu láta eins og þeir skiptu einhverju máli á alþjóðavettvangi eftir úrsögnina úr ESB. Þeir væru bara aftur komnir í kjöltu Bandaríkjamanna og sýndu lénsherranum undirgefni. Frekar ætti að líta á Breta sem meðreiðarsvein Bandaríkjamanna en fullgildan samstarfsaðila annarra ríkja. Franskir fjölmiðlamenn kalla Breta „boðflennu“ í samstarfi Bandaríkjamanna og Ástrala.
Rob Bauer, flotaforingi, formaður hermálanefndar NATO, segir þetta mál ekki hafa áhrif á hernaðarlegt samstarf innan bandalagsins. Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, áréttaði laugardaginn 18. september mikilvægi sambands Bandaríkjamanna og Frakka, það væri „mjög dýrmætt“ að mati Bandaríkjastjórnar.
Í þýskum blöðum er franska stjórnin gagnrýnd fyrir barnaskap og skort á stjórnkænsku.
Süddeutsche Zeitung í München spyr hvort Emmanuel Macron hlusti „þegar Bandaríkjaforseti flytur ræður um utanríkismál“. Bandaríkjamenn séu Áströlum mikilvægari bandamenn en Frakkar andspænis Kínverjum, þetta hefðu franskir ráðamenn átt að sjá. Tagesspiegel í Berlín segir Frakka hafa fengið „harðneskjulega kennslustund í geopólitík“. Þeir hefðu einfaldlega ekki hnattrænan hernaðarmátt Breta. Það ætti langt í land að Evrópusambandið yrði tekið alvarlega í öryggissamstarfi utan eigin heimsálfu.
Að lokum: Í stuttu máli má líta á þetta sem enn eina staðfestingu þess að línur skýrast á öllum sviðum milli Bandaríkjanna og Kína. Ríkisstjórnir skipa sér í fylkingar. Frakkar hafa löngum leikið jafnvægisleik. Emmanuel Macron hefur stundað hann án þess að ná árangri. Nýjasta útspil hans auðveldar honum ekki eftirleikinn.
Þá
blasir við að óvild er mikil milli franskra og breskra stjórnvalda.
Frökkum eru kjarnorkuveldi og þeim er mjög misboðið að verða settir skör
lægra en Bretar, hitt kjarnokuveldið í vesturhluta Evrópu.