Bálkakeðja eða blokkkeðja, bitmynt eða bitamynt
Í upphafi nýs árs er gott að fá þessar skýringar. Til að festa nýjungar í sessi er ekki aðeins nauðsynlegt að skilja hvað í þeim felst heldur einnig að sameinast um hvaða orð á að nota um þær á móðurmálinu.
Í ViðskiptaMogga í morgun (4. janúar) er leitast við að skýra fyrir lesendum nýmæli í viðskiptaheiminum sem rekja má til rafrænna samskipta: annars vegar blockchain og hins vegar bitcoin. Rafmyntin er kölluð bitmynt á íslensku en um hitt fyrirbrigðið eru notuð tvö nýyrði: bálkakeðja og blokkkeðja.
Þór Sigfússon í Sjávarklasanum segir:
„Bálkakeðjunni má best lýsa sem einni samræmdri skrá sem dreift er á marga staði. Það að skráin skuli ekki geymd á einum stað þýðir að enginn einn getur tekið sig til og breytt þeim upplýsingum sem skráin geymir, en að auki er tæknin þannig gerð að ekki þarf millilið til að halda utan um skrána. [...]
Í tilviki bitcoin er bálkakeðjan notuð til að skrásetja á öruggan og áreiðanlegan hátt hver á hvaða rafmynt, en í tilviki sjávarútvegsins mætti t.d. nota bálkakeðjuna til að halda utan um upprunaskráningar sjávarafurða eða gera sjálfvirka „forritanlega“ kaup- og sölusamninga þar sem greiðslur fara sjálfkrafa á milli aðila þegar búið er að fullnægja ákveðnum skilyrðum, s.s. um gæði vörunnar eða afhendingartíma.
Það öryggi sem bálkakeðjan býður upp á þýðir að hún hentar m.a. vel til að skrá rekjanleika-upplýsingar.“
Myndin á að sýna hvernig keðjan (blockchain) myndar vörn um myntina (bitcoin), aðeins þeir sem geta opnað keðjuna geta notað myntina.
Hjörtur H. Jónsson forstöðumaður áhætturáðgjafar hjá ALM verðbréfum, segir:
„Bitmynt hóf sína ungu og stormasömu ævi árið 2009, þegar fyrstu 50 bitmyntirnar voru búnar til og afhentar skapara sínum. Það sem var merkilegt við þennan atburð var ekki bitmyntin sjálf, heldur miklu frekar tæknin og hugbúnaðarkerfið sem hún byggist á, svokölluð blockchain sem mætti kalla blokkkeðju á íslensku. Nýtt kerfi sem gerði kleift að búa til rafmynt sem nánast ómögulegt er að falsa, gefa út umfram fyrirfram ákveðið magn eða ráðskast með af einum eða fáum aðilum. Þannig lá fyrir við stofnun bitmyntarinnar árið 2009 hvað þyrfti að gera til að vinna sér inn (búa til) bitmynt, að fjöldi þeirra geti mestur orðið 21 milljón og hvað þarf að gera til að færa bitmyntir frá einum eiganda til annars. [...]
Greiðsla með bitmynt er hinsvegar háð því að mótaðilinn vilji taka við henni, nokkuð sem er ólíklegt á Íslandi í dag, en erlendis var fjöldi fyrirtækja sem taka við greiðslum í bitmynt kominn yfir hundrað þúsund árið 2015 og þeirra á meðal eru stór og virt fyrirtæki líkt og PayPal, Microsoft og Dell.“
Í upphafi nýs árs er gott að fá þessar skýringar. Til að festa nýjungar í sessi er ekki aðeins nauðsynlegt að skilja hvað í þeim felst heldur einnig að sameinast um hvaða orð á að nota um þær á móðurmálinu.
Sé bitcoin íslenskað kann einhverjum að þykja eðlilegt að tala um bitamynt – bit er biti á íslensku. Miðað við lýsinguna á því sem stendur að baki orðinu blockchain má færa rök fyrir að gegnsærra sé að tala um blokkkeðju en bálkakeðju í daglegu máli. Markmiðið með blockchain er að mynda blokk notenda en í íslensku orðasafni er bálkur notað um blokk í þessu samhengi.
Þór Sigfússon telur að tileinki íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sér bálkakeðju í alþjóðlegum viðskiptum nái þau ekki aðeins forskoti á keppinauta sína heldur verði til ný hátækni-aukabúgrein sem öðlist sjálfstætt líf. Tæknin sparar ekki aðeins sporin og mannaflann heldur skapar nýjar afurðir og tækifæri.