19.7.2019 9:54

Bakarar hengja bakara fyrir smið

Orð Jóhannesar sýna að í raun eru bakarar að hengja bakara fyrir smið, þeir vilja ná sér niðri á öðrum orkupakkanum með því að ráðast á þann þriðja og Samtök iðnaðarins í leiðinni.

Vilhjálmur Bjarnason sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn ritar grein í Morgunblaðið í dag (19. júlí) og segir meðal annars:

„Það er mikil bjartsýni að halda að hægt sé að einangra stjórnmál við hugsjónir. Flestir kjósendur velja almennar leikreglur fram yfir einstakar úthlutanir gæða. Með viðreisnarstjórninni sem sat að völdum frá 1959 til 1971 var reynt að setja almennar leikreglur í stað úthlutana gæða. Frá 1990 hefur landsstjórnin einkennst af því að leitast er við að nálgast stjórnarfar með setningu almennra reglna í stað úthlutana gæða. Á þeim tíma misstu stjórnmálamenn valdatæki sem sumir vildu halda í en það voru fjármálastofnanir í eigu ríkisins. Það ber að játa að einkavæðing fjármálafyrirtækja og framkvæmdin misheppnaðist, þrátt fyrir regluvæðingu fjármálamarkaðarins, en vegna þess að eftirlitið með fjármálafyrirtækjunum í framhaldinu brást.

Fyrir þeim er þetta ritar er eftirsóknarvert að hafa almennar reglur og tækifæri fyrir alla. Fyrir þá sem ekki ná að nýta tækifærin verði til stuðningskerfi með hvötum. Ísland er land tækifæra fyrir alla. Landsstjórninni frá 1990 til vorra daga hafa fylgt miklir sigrar vegna þeirra almennu leikreglna sem settar hafa verið í lýðræðissamfélagi okkar.“

Undir þessi orð skal tekið og minnt á að við stjórnarskiptin 1991 þegar sjálfstæðismenn og kratar settust í stjórn var mikið rætt um fortíðarvanda. Með því var meðal annars vísað til þess að menn skyldu ekki sitja í biðstofum ráðherra til að fá úrlausn sinna mála heldur fara að almennum leikreglum þar sem allir sætu við sama borð.

Breadbasket-2705179_960_720Í sama tölublaði Morgunblaðsins og grein Vilhjálms birtist er frétt um úrsögn bakarameistara úr Landssambandi bakarameistara vegna þess að það sé eina leið hans til að segja skilið við Samtök iðnaðarins. Bakameistarinn vill snúa baki við samtökunum þar sem þau styðja þriðja orkupakkann þvert á vilja Landssambands bakarameistara.

Í fréttinni er rætt við bakarameistarann Jóhannes Felixson, formann landssambandsins, sem segir að ástæðan fyrir ályktuninni á sínum tíma hafi verið sú að félagsmenn í Landssamtökum bakarameistara hafi lent illa í því, eins og hann orðar það, þegar annar orkupakkinn var samþykktur. Fyrir þá samþykkt hafi bakarar og grænmetisbændur fengið ódýrara rafmagn á nóttunni en eftir samþykktina hafi orkukostnaður hækkað um 50%.

Orð Jóhannesar sýna að í raun eru bakarar að hengja bakara fyrir smið, þeir vilja ná sér niðri á öðrum orkupakkanum með því að ráðast á þann þriðja og Samtök iðnaðarins í leiðinni.

Að virða skuli almennar leikreglur á orkumarkaði vegna EES-aðildarinnar snertir einmitt kjarna þess sem Vilhjálmur Bjarnason ræðir í grein sinni. Það þjónar ekki lengur tilgangi að skrá sig í viðtal hjá ráðherra og óska eftir sérverði á raforku fyrir einstaka hópa. Eina breytingin sem þriðji orkupakkinn hefur fyrir Ísland er einmitt aukið sjálfstæði Orkustofnunar gagnvart stjórnvöldum og þar með stjórnmálamönnum. Stofnunin á að tryggja að almennar markaðsreglur gildi en sérhagsmunum sé vikið til hliðar.