Bænakall múslima kosningamál í Svíþjóð
Nú er bænakall leyft á þremur stöðum í Svíþjóð: í úthverfi Stokkhólms, í Karlskrona og nú síðast í bænum Växjö 25. maí sl.
Meðal þess sem rætt er fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð er hvort leyfa eigi bænaköll frá mínarettum við moskur í landinu. Nýleg könnun sýnir að mikill meirihluti Svía er andvígur því að leyfa að múslimar séu kallaðir til bæna á þennan hátt.
Í könnun sem fyrirtækið SIFO gerði fyrir einkasjónvarpsstöðinaTV4 í mars lýstu 60% andstöðu við að leyfa bænakall frá moskum. Nú er það leyft á þremur stöðum í Svíþjóð: í úthverfi Stokkhólms, í Karlskrona og nú síðast í bænum Växjö 25. maí sl. Einu sinni í viku, á föstudögum, er kallað til bæna frá þessum moskum. Lögreglan veitti leyfið í Växjö með því skilyrði að kallið yrði ekki hærra en 45 decibel innan dyra og 110 decibel utan dyra.
Moskan í Malmö – þaðan er bænakall ekki leyft.
Athygli hefur beinst að Växjö þingkosninganna 9. september. Svíþjóðardemókratar og smáflokkar leggjast gegn heimildinni til bænakalls. Þar á bæ segja menn heimildina endurspegla dæmigerðan pólitískan rétttrúnað. Biskupinn í Växjö fagnar hins vegar nýmælinu í bæjarlífinu.
Eins og sagt var frá hér í gær mælast Svíþjóðardemókratarnir nú stærsti flokkur landsins þegar rúmur mánuður er til þingkosninga í Svíþjóð, þeir fengju tæplega 29% atkvæða yrði niðurstaða kosninganna í samræmi við kannanir.
Fylgst er náið með því af stjórnmálaskýrendum, ekki síst utan Svíþjóðar, hvaða áhrif Svíþjóðardemókratar hafa á stefnu og viðhorf annarra flokka.
Því er ekki lengur haldið fram á sama hátt og áður að innviðir sænska hagkerfisins styrkist með komu innflytjenda. Útreikningar þykja sýna að útgjöldin vegna innflytjenda vega þyngra en framlag þeirra til þjóðarbúskaparins. Að koma þessum staðreyndum á framfæri hefur reynst þrautin þyngri meðal annars vegna hlutdægni þáttastjórnenda hjá sænska ríkissjónvarpinu.
Jafnaðarmaðurinn Stefan Lövfen forsætisráðherra boðaði fyrir nokkru til neyðarfundar til að herða á aðgerðum lögreglu til að tryggja almannafrið, líf og eignir íbúa í þeim borgum þar sem helst hefur komið til árekstra og átaka í innflytjendahverfum.
Þessi þróun fellur að því sem fram hefur komið í málflutningi Svíþjóðardemókrata undanfarin ár um það hvert stefndi í sænsku samfélagi. Verði þeir með stærsta þingflokkinn að loknum kosningum en samt settir í skammarkrókinn í þinginu verður erfitt að mynda starfhæfa sænska ríkisstjórn.