26.6.2018 10:36

Ávirðingar í Cambridge og borgarstjórn

Sé ekki hægt að sýna sér kurteisi við skólahliðið geti hún ekki unnið þarna lengur.

Háskólakennarinn Priyamvada Gopal (50 ára) við King‘s College í Cambridge háskóla í Bretlandi segist hafa verið lítillækkuð vegna kynþáttafordóma dyravarða við skólann.

Hún segist ætla að hætta að kenna við stofnunina eftir að hafa árum saman mátt þola fordóma og áreitni dyravarðanna. Sé ekki hægt að sýna sér kurteisi við skólahliðið geti hún ekki unnið þarna lengur.

Myndin er frá King´s College í Cambridge,

Hún hafi hvað eftir annað á leið sinni til starfa í enskudeild skólans beðið dyraverðina um að ávarpa sig „Dr. Gopal“ í stað þess að segja „madam“. Eftir að hún hafi sagt: „Vinsamlega ávarpið mig sem Dr. Gopal,“ hafi dyravörður hreytt að sér: „Mér er sama hver þú ert.“ Þetta sé ekki einsdæmi því að námsmenn geti borið vitni um að dyraverðir King‘s mismuni fólki hrikalega eftir kynþáttum.

Dr. Gopal sem hefur að sögn blaðsins The Independent mikinn áhuga á bókmenntum og kenningum um nýlendutímann og eftirleik hans segir að hún hafi verið kölluð „madam“ sér til háðungar og niðurlægingar, beri alls ekki vott um neinn hroka af sinni hálfu að vilja vera ávörpuð með lærdómstitli sínum.

Upp úr sauð fyrir nokkrum dögum þegar allir sem áttu leið í skólann voru beðnir um skilríki. Aðeins fullgildir félagar í King‘s fengu að fara um aðalhlið skólans. Dr. Glopal er ekki í þeim hópi og var bent á hjáleið. Eftir það sagði dr. Glopal sig frá starfinu við King‘s. Talsmaður skólans segir málið hafa verið rannsakað og niðurstaðan sé að starfsmenn skólans hafi farið að fyrirmælum en ekki mannvirðingum. Hafnar skólinn því alfarið að um kynþáttamismunun hafi verið að ræða enda samrýmist það ekki reglum hans.

Umræður um mismunun eiga erindi hingað til lands þegar embættismaður borgarstjórnar Reykjavíkur sér ástæðu til að kvarta í sérstakri skýrslu yfir að hann skuli nefndur á nafn í ræðustól borgarstjórnar án þess að geta svarað fyrir sig. Hvað um alla aðra? Má ekki nafngreina neinn utan borgarstjórnar í ræðustólnum?

Óskar embættismaðurinn eftir að borgarfulltrúar minnihlutans fari í endurhæfingu og einnig  að forsætisnefnd borgarstjórnar taki til skoðunar að grípa til „viðeigandi ráðstafana, þ.m.t. að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga“. Í skýrslu sinni minnist embættismaðurinn ekki á fliss og dónaskap meirihluta borgarstjórnar á fundinum 19. júní.