14.8.2019 9:52

Ávinningur Landsvirkjunar af markaðsbúskap

Kröfur um afturhvarf í orkumálum til tímans fyrir EES eru meðal annars reistar á sviðsmyndum um að þriðji orkupakkinn kalli skaðabótaskyldu yfir þjóðina hafni stjórnvöld sæstreng.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, birtir í dag (14. ágúst) grein í Fréttablaðinu þar sem hann lýsir reynslunni af því að raforkulögunum var breytt árið 2003 til þess að innleiða raforkutilskipun ESB.

Við vorum nokkrir þingmenn sem mæltum þá með aðgæslu vegna sérstöðu íslenska raforkumarkaðarins í ljósi þess að hann væri ótengdur sameiginlega ESB-markaðnum eins og hann er enn þann dag í dag. Voru fyrirvarar af Íslands hálfu viðurkenndir í ferlinu en við innleiðingu 2. orkupakkans ákváðu íslensk stjórnvöld að falla frá þeim í ljósi reynslunnar.

Grein Harðar staðfestir að með því að innleiða markaðsbúskap í raforkumálum hér í stað áætlunarbúskapar hefur náðst góður árangur. Hann nefnir sex atriði: (1) grunnvirkið er hagkvæmt; (2) raforkusamningar við stórnotendur færðir í viðskiptalegt umhverfi án afskipta stjórnmálamanna; (3) sköpuð skynsamleg umgjörð um þessa flóknu viðskiptasamninga við stór alþjóðleg fyrirtæki; (4) í öllum nýjum samningum og endursamningum við stórnotendur hefur raforkuverð hækkað án þess að dregið hafi úr eftirspurn eða framleiðslu; (5) raforkuverð stórnotenda nálgast verð í öðrum löndum; (6) nýjum fyrirtækjum auðveldað að taka til starfa á Íslandi.

Þá segir Hörður Arnarson:

„Raforkulögin hafa tvímælalaust stuðlað að heilbrigðara rekstrar­umhverfi orkufyrirtækja og atvinnulífs. Gegnsæi hefur verið aukið, jafnræði notenda og framleiðenda aukið, staða orkunotenda styrkt, grundvöllur skapaður til samkeppni þar sem hún á við og stuðlað að lægra orkuverði á almennum markaði.“

11.06.2015-burfellsvirkjun_1565776328765Búrfellsvirkjun.

Vert er að benda á þessar staðreyndir núna þegar margir fara hamförum gegn því að markaðsbúskapur í krafti EES/ESB-reglna sé á íslenskum raforkumarkaði. Þess er jafnvel krafist að horfið verði til áætlunarbúskapar ef ekki sagt skilið við EES-samstarfið í heild.

Kröfur um afturhvarf í orkumálum til tímans fyrir EES eru meðal annars reistar á sviðsmyndum um að þriðji orkupakkinn kalli skaðabótaskyldu yfir þjóðina hafni stjórnvöld sæstreng.

Sveinn Þórarinsson verkfræðingur sagði í Morgunblaðinu í gær (13. ágúst) að sæstrengur væri „dýrt fyrirbæri og áhættusamt bæði fjárhagslega og tæknilega“. Vegalengdin milli Austfjarða og Skotlands er um 1.000 km og mesta dýpi um 1.000 m. Fyrir einhverjum árum hefði verið birt áætlun um að 1.000 MW strengur kostaði 300 milljarða. Hér þyrfti að virkja og leggja flutningslínur að strengendanum. Það kostaði líklega 500 milljarða, heildartalan væri þá komin í 800 milljarða. Nánast væri bannað að grípa til millifærslu og/eða niðurgreiðslu kostnaðar, það skekkti samkeppnisstöðu. „Stóra spurningin er því sú hvort sæstrengurinn getur orðið sjálfbær á þeim forsendum,“ segir Sveinn undir lok greinar sinnar.

Að svara þessari spurningu forðast hræðslusmiðir sviðsmyndarinnar um sæstrenginn ógurlega sem þeir segja að komi hingað eins og Miðgarðsormur.