29.10.2021 9:23

Aukum sjálfstæði grunnskóla

Nú er tímabært að ýta undir fjölbreytni og sjálfstæði grunnskóla hér með nýju skrefi á borð við flutninginn árið 1996 og færa skólana enn nær þeim sem þar starfa og stunda nám.

Um þessar mundir er þess minnst að aldarfjórðungur er frá því að grunnskólinn var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þetta var og er ef til vill enn þann dag í dag stærsta tilfærsla á verkefnið sem flutt hefur á milli þessara opinberu aðila. Þarna var um að ræða um 3.700 starfsmenn og 42.000 nemendur.

Meðal röksemda til að kynna þessi miklu umskipti í starfsumhverfi skólanna var að þeir myndu styrkjast við að færast nær stjórnsýslulegu umhverfi sínu auk þess sem aðhald þess og foreldra mundi tryggja gott innra starf.

Á þessum árum var kvartað undan fjársvelti grunnskólanna og sótt var að yfirvöldum í krafti tölfræði sem sýndi minna fjárstreymi til þessa þáttar skólakerfisins hér en í samanburðarlöndum innan OECD.

Í grein sem Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar um grunnskólann í Morgunblaðið fimmtudaginn 28. október segir að íslenskt samfélag greiði nú vegna hvers grunnskólanema 40% hærri fjárhæð en svarar til OECD-meðaltalsins.

Grunnskolinn_72Þarna hafa því orðið algjör umskipti frá því sem áður var. Þegar ég varðist sem menntamálaráðherra gagnrýni vegna samanburðar við OECD við flutning grunnskólans sagði ég gjarnan að tölur um útgjöld segðu ekki allt um gæði hans. Fyrir nemendur, en þeirra vegna starfaði skólinn, skipti mestu að þeir hlytu góða menntun sem stæðist alþjóðlegan samanburð.

Í grein sinni segir Hildur að þrátt fyrir mikil útgjöld til grunnskóla hér í OECD-samanburði mælist gæði skólastarfs sífellt verr í samanburði þjóða. Árið 2003 mældist íslenskt skólakerfi 13. besta innan OECD, en nú skipar íslenska kerfið 31. sætið.

Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum PISA-könnunar. Ísland er undir OECD-meðaltali í öllum mældum námsgreinum og mælist verst allra Norðurlandaþjóða.

Þetta er með öllu óviðunandi og langt frá öllu sem að var stefnt fyrir aldarfjórðungi. Þá neikvæðu þróun sem þarna birtist má meðal annars rekja til ákvarðana sem auka leynd um árangur innan skólakerfisins og stuðla að því að gera allan samanburð á milli einstakra skóla erfiðari en áður með breytingum á einkunnagjöf og samræmdum prófum.

Hildur Björnsdóttir vill að íslenska skólakerfið verði meðal tíu fremstu innan OECD fyrir árið 2040. Það markmið næst ekki nema með metnaðarfullu átaki þar sem höfuðborgin og stefna hennar vegur þyngst.

Hildur bendir á að Holland mælist meðal efstu þjóða í PISA-könnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Í Hollandi sækja um 70% allra grunnskólabarna nám í einkareknum skólum. Skólarnir eru sjálfstæðir í störfum sínum, en innheimta ekki skólagjöld enda fjármagnaðir af skattgreiðendum.

Nú er tímabært að ýta undir fjölbreytni og sjálfstæði grunnskóla hér með nýju skrefi á borð við flutninginn árið 1996 og færa skólana enn nær þeim sem þar starfa og stunda nám. Þetta verður best gert með fjölgun sjálfstæðra skóla og aukinni opinberri miðlun upplýsinga um skólastarf með mælaborði menntamála á netinu.