25.9.2021 10:34

Auðvelt val: xD

Í kosningunum í dag er öruggasta leiðin til að forða þjóðinni frá pólitísku upplausnarástandi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn: xD.

Að þessu sinni ráðast úrslit kosninganna líklega ekki fyrr en snemma að morgni sunnudags 26. september. Kannanir sýna að mjótt verði á mununum. Undir lokin tóku línur þó að skýrast á þann veg að kjósendur vildu framhald þess stjórnarsamstarfs sem reynst hefur farsælt undanfarin fjögur ár, samstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna (VG).

Í byrjun vikunnar fór stjórnmálafræðingur ríkisútvarpsins, Ólafur Þ. Harðarson, að tala um að ef til vill rynni nú upp tími minnihlutastjórna hér á landi. Einhver flokkur eða hópur flokka myndaði minnihlutastjórn sem nyti stuðnings annarra flokka á þingi án stjórnaraðildar. Við úrlausn einstakra mála yrði leitað samkomulags út fyrir veggi stjórnarráðsins og þetta leiddi til lýðræðislegri stjórnarhátta en í tíð meirihlutastjórna.

Þá kvaddi Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti og stjórnmálafræðiprófessor, sér hljóðs og lét eins og ákvörðun um minnihlutastjórn væri hluti „nýrra tíma“ það væri til marks um „gamlan tíma“ að forseti veitti umboð til stjórnarmyndunar. Hér hefði orðið til einhver goðsögn um þetta „umboð“. Forystumenn stjórnmálaflokkanna hefðu valdið til stjórnarmyndunar hvað sem forsetinn segði.

Ólafur Ragnar kynntist þessu sem forseti. Eftir þingkosningar 1999 og 2003 var honum ilkynnt að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ætluðu að starfa saman í meirihlutastjórn.

Þegar Samfylkingin rauf samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í janúar 2009 ákvað nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, til að láta þingflokk framsóknarmanna veita minnihlutastjórn Samfylkingar og VG undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hlutleysi. Þar átti Framsóknarflokkurinn hlut að hreinsunum í Seðlabanka Íslands og vakti upp stjórnarskrárdrauginn sem enn laumast með veggjum. Fáir hafa reynt meira á sig við að kveða drauginn niður en Ólafur Ragnar, án árangurs til þessa.

242509475_10158419636147709_7171114353895951981_nMinnihlutastjórnin 2009 var mynduð í vissu þess að gengið yrði fljótlega til kosninga. Sat stjórnin frá 1. febrúar til kosninga 25. apríl 2009. Veturinn 1978-9 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks undir forsæti Benedikts Gröndals til bráðabirgða í um fjóra mánuði fram að kosningum. Árið 1958-59 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir stjórn Emils Jónssonar með stuðningi Sjálfstæðisflokksins í um ellefu mánuði og veturinn 1949-50 leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins í þrjá mánuði. Í öllum tilvikum var um mjög óvenjulegar aðstæður í stjórnmálum að ræða.

Hér eru minnihlutastjórnir að jafnaði myndaðar til bráðabirgða svo að umþóttunartími gefist til undirbúnings kosningum. Fyrir Sigmundi Davíð vakti í janúar 2009 að minnihlutastjórn sæti í stuttan tíma og efnt yrði til kosninga svo að hann kæmist á þing. Verði minnihlutastjórn mynduð að loknum kosningum í dag verður örugglega efnt fljótlega til þingkosninga að nýju.

Að telja eftirsóknarvert að slíkt ástand skapist í stjórn landsins kann að þykja fræðilega spennandi en fyrir allan almennings og þjóðarbúið í heild yrði aðeins tjaldað til einnar nætur með minnihlutastjórn. Í kosningunum í dag er öruggasta leiðin til að forða þjóðinni frá slíku ástandi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn: xD.


Ps þetta er ekki sami texti og upphaflega fór á vefsíðuna. Að athuguðu máli var að finna staðreyndavillu í fyrri texta. Hún hefur verið leiðrétt í þeim texta sem nú er á vefsíðunni.