Atvinnulífið skiptir um gír
Undrun sætir hve efnahags- og atvinnulífið tekur fljótt við sér eftir að flugferðum fjölgaði til landsins og dregið var úr hindrunum fyrir þá sem hingað koma.
Undrun sætir hve efnahags- og atvinnulífið tekur fljótt við sér eftir að flugferðum fjölgaði til landsins og dregið var úr hindrunum fyrir þá sem hingað koma. Enn sannast hve tengslin við Bandaríkin skipta okkur miklu í öllu tilliti. Þegar aflétt var ferðahindrunum gagnvart Bandaríkjamönnum breyttist allt yfirbragð á ferðamannastöðum sem eru vinsælastir meðal Bandaríkjamanna, Þeir eru almennt kröfuharðir viðskiptavinir sem hækkar einnig stigið á þjónustunni sem verður að bjóða.
Til marks um umsvifin má nefna að í dag 9. júlí má telja á vefsíðu Isavia 12 komur flugvéla frá Bandaríkjunum til Keflavíkurflugvallar. Vélarnar eru frá Icelandair, Delta og United Airlines.
Stóru bandarísku flugfélögin bregðast við vaxandi eftirspurn á heimaslóðum sínum með fjölgun ferða hingað. Fyrir fáeinum dögum hóf United Airlines í fyrsta sinn daglegt flug milli Chicago og Keflavíkurflugvallar.
Í Fréttablaðinu er í dag rætt við Guðrúnu Hildi Ragnarsdóttur, viðskiptastjóra hjá bókunarsíðunni Expediu. Um 80% bókana hingað til lands, sem fara í gegnum Expedia, koma frá Bandaríkjunum. Þær voru um 45% árið 2019.
„Um leið og ríkisstjórnin opnaði landið þá sáum við bókunartölurnar rjúka upp. Við hættum að bera okkur saman við 2020 og fórum að bera okkur saman við 2019. Við erum komin á þann stað að við erum að selja jafn mikið á milli vikna og 2019 miðað við sama tíma,“ segir Guðrún.
Fjölgun ferða á vegum stórra bandarískra flugfélaga til Íslands bendir til mikilli og vaxandi umsvifa í ferðaþjónustu (mynd: Isavia).
Stóryrðin frá því í vetur gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að heimila Bandaríkjamönnum að sækja landið heim uppfylltu þeir sóttvarnakröfur eru gleymd. Sömu sögu er að segja um reiðina vegna málaferla til að losna undan skyldu til að dveljast á sóttvarnahóteli. Öllu þessu þarf þó að halda til haga til að rifja upp andrúmsloftið í faraldrinum. Þá mega hrakspárnar um hrun efnahagsstarfseminnar ekki heldur gleymast.
Stjórnarandstöðunni er ekkert kappsmál að málflutningi hennar og ómálefnalegri gagnrýni á ríkisstjórnina á óvissu- og erfiðleikatímum sé hampað. Til að draga athygli frá öllum órökstuddu fullyrðingunum sínum um það sem máli skiptir hanga sumir stjórnarandstæðingar enn í smáatvikinu í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu 2020 í von um að koma höggi á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann hélt þannig á stjórn málaflokka sinna fyrir farsóttina og á farsóttartímanum að viðurkenningu hlýtur á alþjóðavettvangi þar sem borin er saman staða og árangur einstakra ríkja.
Í leiðara Morgunblaðsins í gær (8. júlí) sagði:
„Bjarni [Benediktsson] orðaði það svo í viðtali við Morgunblaðið í fyrra, að ríkisstjórnin veðjaði á að þetta væri tímabundið ástand og hún veðjaði á að ferðaþjónustan tæki skjótt við sér að því loknu, svo endurheimta mætti umsvif og störf í einkageiranum og vinna upp allt það sem tapast hefði í faraldrinum.
Þetta mat, þessar ákvarðanir og þessi veðmál reyndust rétt, eins og OECD staðfestir í skýrslu sinni.“
Nú þegar skipt er um gír í atvinnulífinu verður breyting á öllum sviðum þjóðlífsins. Mestu skiptir að halda niðurrifsöflunum frá stjórn landsins þau eru alltaf í sama niðurrifsgírnum, hvort sem vel árar eða illa.