Átök um vítaverð ummæli á þingi
Misjafnlega erfitt er fyrir þingmenn að vera í návist þeirra í þinghúsinu sem eru þeim ekki að skapi. Menn bera þá byrði almennt í hljóði
Alþingi er átakavöllur og leiðin inn á þing er einnig mörkuð af átökum. Við ákvörðun framboðslista er beitt mismunandi aðferðum.
Í litlum flokkum sem reistir eru á frumkvæði einstakra manna eru það forystumennirnir sem velja frambjóðendur. Þetta einkennir þrjá þingflokka um þessar mundir: Viðreisn, Miðflokkinn og Flokk fólksins.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru eins manns flokkar, án Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ingu Sæland væri hvorugur flokkurinn starfandi. Þau réðu einnig mestu um hverjir skipuðu efstu sæti í einstökum kjördæmum. Flokksleiðtogarnir gerðu það í samvinnu við handvalda samstarfsmenn sína.
Að Inga Sæland skrifi skammargrein um Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason sem hún valdi til framboðs með sér og finni þeim til foráttu að þeir hafi verið í Sjálfstæðisflokknum er hræsni. Valdi hún þá ekki einmitt vegna þessa pólitíska bakgrunns þeirra? Að nota það gegn þeim nú hittir Ingu sjálfa. Þegar að henni er vegið er allt leyfilegt í vörninni.
Misjafnlega erfitt er fyrir þingmenn að vera í návist þeirra í þinghúsinu sem eru þeim ekki að skapi. Menn bera þá byrði almennt í hljóði eða létta farginu af sér í hópi samherja. Að þessu leyti eru þingmenn ekkert öðru vísi en almennt gengur og gerist.
Í gær (24. janúar) varð uppi fótur og fit á alþingi þegar Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, miðflokksmenn, sneru aftur til þings eftir tveggja mánaða launalausa fjarveru – þeir urðu sér til skammar á Klaustur-bar.
Uppnámið vegna endurkomu þeirra á þing má rekja til særandi ummæla sem þeir létu falla illa drukknir á bar, ummæla sem voru hljóðrituð án vitundar þeirra og síðan birt. Með orðum sínum vógu þeir að þingmönnum á allt annan hátt en gert er í ræðustól þingsins eða á nefndarfundum. Þeir voru á pólitíska vígvellinum, drukknir á ölstofu.
Hefðu þingmennirnir snúið aftur hefðu þeir verið valdir til þingsetu í prófkjöri eða af kjördæmisráði? Spurningunni er ekki unnt að svara. Sigmundur Davíð valdi þá. Hluti bar-samtalsins var lofræða um hann.
Formaður Miðflokksfélags Reykjavíkur sagði af sér af því að hann taldi flokkinn ekki búa yfir skipulagi til að takast á við mál þingmanna hans á lýðræðislegan hátt.
Þingmenn verða að una því í að minnsta kosti fjögur ár að sitja saman á alþingi þótt þeir séu ósáttir hver við annan. Málskot til siðanefndar breytir engu um það, síst af öllu þegar um það er deilt hvort þingmenn hagi orðum sínum á vítaverðan hátt. Umburðarlyndi þingforseta í því efni er mikið eins og lesa má í þingtíðindum.