Atkvæðaveiðar í gruggugu vatni
Við vitlausum spurningum koma vitlaus svör ef sá sem svarar sér ekki sóma sinn í að leiðrétta delluna.
Það er furðulegt hve spyrjendur forsetaframbjóðenda í ríkissjónvarpinu og á Stöð 2 eru illa að sér þegar kemur að bókun 35 við EES-samninginn. Þetta sannaðist enn að kvöldi 16. maí.
Heimir Már Pétursson á Stöð 2 lagði mál þannig upp við Arnar Þór Jónsson frambjóðanda eins og einhver spurning væri um gildi bókunar 35 og frambjóðandinn svaraði eins og svo væri.
Sigríður Hagalín ræddi við Arnar Þór á sömu nótum í ríkissjónvarpinu og á ruv.is má lesa útdrátt úr samtali þeirra og þar stendur:
„Arnar Þór segist líta svo á að með því að samþykkja bókunina séu íslensk stjórnvöld að leggja á hilluna góð rök fyrir því að þetta verði óbreytt og fallast á kröfur ESA. „Ég lít á þetta sem uppgjöf í hagsmunagæslu Íslands,“ segir hann.“
Arnar Þór Jónsson í framboðsviðtali við Sigríði Hagalín 16. maí 2024.
Uppleggið frá Sigríði Hagalín gaf tilefni þessa stórundarlega málatilbúnaðar. Í stuttu máli er bókun 35 hluti af EES-samningnum sem hér hefur gilt í 30 ár. Áður en alþingi lögfesti hann var sérstaklega kannað hvort bókun 35 bryti í bága við stjórnarskrána. Svo er ekki.
Við framkvæmd bókunar 35 standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir þeim vanda að túlkun hæstaréttar á 3. gr. EES-laganna hefur skert rétt þeirra sem lúta íslenskri lögsögu til að nýta sér kosti fjórfrelsisins og sameiginlega evrópska markaðarins. Hér er um að ræða breytingu á íslenskum lögum sem alþingi setur.
Ummæli Arnars Þórs eins og þau birtast í endursögninni á ruv.is eru einfaldlega óskiljanleg í ljósi þess sem um er að ræða í þessu máli.
Við vitlausum spurningum koma vitlaus svör ef sá sem svarar sér ekki sóma sinn í að leiðrétta delluna.
Réttilega leggur Arnar Þór ríka áherslu á hve honum sé annt um að gæta vandaðra vinnubragða og fara í saumana á hverju máli sem hann tekur til meðferðar. Tal hans um bókun 35 ber kannski að líta á undantekningu sem sanni þessa reglu.
Í Morgunblaðinu í dag (17. maí) eru greinar til stuðnings Arnari Þór. Greinarhöfundur, sem líkir Arnari Þór við landvættina, vísar til umræðna um bókun 35 með þessum orðum: „Já, og nú stendur svo á að Alþingi hefur til umfjöllunar tillögu um að erlent lagasetningarvald verði æðra því íslenska.“ Málið snýst hins vegar um að alþingi breyti lögum sem það hefur sjálft sett til að tryggja betur rétt borgaranna.
Annar segir: „Sömuleiðis svokölluð bókun 35 sem kveður á um að evrópsk lög skuli vera rétthærri okkar eigin. Hana þarf þjóðin einnig að stöðva. Að öðrum kosti færumst við rakleiðis aftur til Íslands árið 1262“. Samkvæmt þessari kenningu færðumst við aftur til 1262 árið 1994 því að þá gekk EES-samningurinn og bókun 35 í gildi hér.
Því verður ekki trúað fyrr en tekið er á að Arnar Þór telji sér sæma að stundaðar séu atkvæðaveiðar fyrir hann í svo gruggugu vatni. Hann hefur nú tvær vikur til að vinda ofan af þessari vitleysu fréttamanna og stuðningsmanna þegar málstaður hans er kynntur.