11.3.2022 9:36

Athyglissýki Viðreisnar

Allt er þetta til marks um óðagotstilraun til að „koma sér inn í umræðuna“ eins og stjórnmálamenn orða það þegar dregið er upp flokksflagg í tilefni stóratburðar í von að fá brot af athyglinni sem að atburðinum beinist.

Á þessu stigi veit enginn hvernig stríðinu í Úkraínu lýkur. Rússar hefja nú árásir á fleiri borgir en áður og dreifa miklu liði umhverfis höfuðborgina, Kyív. Það sem Pútín hélt að tæki sig tvo daga, að fella stjórnina í Kýiv og setja lepp sinn á forsetastól, nálgast nú óðfluga þrjár vikur. Grunsemdir eru um að hann búi rússneska herinn um að beita sýkla- eða efnavopnum, gereyðingarvopnum í ætt við kjarnorkuvopn.

Í einstaka löndum Evrópu hafa stjórnarandstöðuflokkar rofið samstöðu að baki stefnu ríkisstjórna landa sinna í von um að slá pólitískar keilur. Hér hefur Viðreisn ákveðið að fara inn á þá braut með þingsályktunartillögu sem greinilega er flutt til að skaprauna Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ýta undir skil á milli stjórnarflokkanna í afstöðunni til NATO og varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Að þetta sé markmiðið kom glöggt fram í orðaskiptum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur (ÞKG), formanns Viðreisnar, og forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi fimmtudaginn 10. mars.

Af orðum ÞKG mátti ætla að fyrir henni vekti að opna varnarsamninginn frá 1951 til að skapa vandræði en við lestur þingsályktunartillögunnar sést að þingflokkur Viðreisnar vill að litið sé til viðbóta við varnarsamninginn og þeim breytt t.d. vegna netárása, vernd aðfangaleiða, sæstrengja og orkuöryggis. Þá er í tillögunni einnig gert ráð fyrir að metnir verði kostir þess „að stíga lokaskrefið [...] að fullri aðild að Evrópusambandinu“.

Í ræðu 10. mars sagði ÞKG að forsætisráðherra gæti „ekki sagt skýrt og klárt að taka [ætti] upp varnarsamninginn við Bandaríkin, sem [væri] frá árinu 1951, í ljósi þjóðarhagsmuna, þjóðaröryggis“. Mátti skilja að þetta væri þeim mun ámælisverðara vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sæti í ríkisstjórn. „Ég sé greinilega að það er allt í pati hér á ríkisstjórnarbekknum. Ég skil vel að það sé svo,“ sagði formaður Viðreisnar í lok ræðu sinnar.

Vidreisn_logo_nourl_1646991333763Allt er þetta til marks um óðagotstilraun til að „koma sér inn í umræðuna“ eins og stjórnmálamenn orða það þegar dregið er upp flokksflagg í tilefni stóratburðar í von að fá brot af athyglinni sem að atburðinum beinist.

Í svarræðu sinni sagði Katrín Jakobsdóttir réttilega að það væri „varasamt“ hjá ÞGK „að sá þeim fræjum hér að varnarsamningurinn standist ekki tímans tönn“.

Hún minnti á uppfærslu viðbóta við samninginn árin 2006 og 2016. Ríkisstjórnin teldi ekki þörf á uppfærslu viðbóta nú. Þá sagði forsætisráðherra:

„Ég held því að hér sé hv. þingmaður að grípa til ákveðinna mælskubragða. Ég held að ekki sé ástæða til að grípa til slíkra mælskubragða þegar ástandið í heiminum er jafn alvarlegt og raun ber vitni.“ Samstaðan á þingi væri „eitthvað sem við ættum að reyna að halda í þegar ástandið er jafn alvarlegt og raun ber vitni“.

Viðreisn vegur markvisst að pólitískri samstöðu um viðbrögð við Úkraínustríðinu með tillögu sinni. Einhugur um þjóðaröryggisstefnuna skal rofinn og ESB-aðildardeilur kveiktar. Að kenna þetta við mælskubrögð sýnir langlundargeð forsætisráðherra. Miklu nær er að leiða hugann að popúlisma.