31.5.2017 14:37

Átakanleg ákvarðanafælni Pírata

Að láta eins og ráðherranum sé skylt að sitja og standa eins og dómnefndin segir er fráleitt, væri svo hefði ekki þurft að hafa ákvæði um svigrúm ráðherrans og aðkomu alþingis.

Meðferð alþingis á tillögu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að ekki skuli fallist alfarið á tillögu nefndar um val á 15 dómurum í nýjan Landsrétt heldur skuli 11 nafna í tillögunni standa en 4 víkja fyrir nýjum er prófraun fyrir þingmenn. 

Aldrei fyrr hefur reynt á ákvæði þessa efnis við skipun í embætti dómara en oft hefur verið rætt um nauðsyn þess að þingið kæmi að ákvörðun um hverjir yrðu dómarar, einkum hæstaréttardómarar.

Millidómstigið í Landsrétti er nýtt og við setningu laga um það var þessi aðferð við val á dómurum ákveðin. Að láta eins og ráðherranum sé skylt að sitja og standa eins og dómnefndin segir er fráleitt, væri svo hefði ekki þurft að hafa ákvæði um svigrúm ráðherrans og aðkomu alþingis.

Á þingfundi í dag, miðvikudag 31. maí, sagði dómsmálaráðherra:

„Það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og ber á því ábyrgð, bæði pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð. Ráðherra leggur tillögu fyrir þingið. Þingið hefur tvo möguleika í stöðunni, að fallast á tillögu ráðherra eða fallast ekki á tillögu ráðherra.“

Á þennan hátt svaraði Sigríður  Á. Andersen Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata. Eins og alkunna er forðast Píratar í lengstu lög að taka afstöðu til mála og velja helst þann kost að óska eftir lengri tíma til umhugsunar eða segja sig skorta gögn til að móta sér afstöðu. Nú skýtur Jón Þór sér á bak við orð stjórnlagafræðinga um að ráðherra verði að rökstyðja tillögu sína fallist hann ekki á niðurstöðu dómnefndarinnar.

Ráðherrann hefur að sjálfsögðu rökstutt niðurstöðu sína. Það er síðan undir hverjum og einum komið hvort rökin hafi áhrif – einfalda leiðin er að segja að meiri rök skorti ef menn vilja ekki segja hreint út að þeir séu ósammála tillögu ráðherrans og leitist síðan við að færa rök fyrir þeirri skoðun. Stjórnlagafræðingarnir skila í raun auðu með því að segja að þá skorti rök og fellur það að sjálfsögðu Pírötum best í geð.

Þingmeðferð málsins hefur orðið til þess að gögnum dómnefndar hefur verið lekið til fjölmiðla en dómnefndin hefur sett tölustafi fyrir framan nöfn umsækjanda til að átta sig á hæfi þeirra. Þetta er ómakleg aðferð í skjölum sem síðan er lekið. 

Þegar þetta er skrifað er óljóst hvernig meðferð þingsins á málinu lyktar. Hafi það verið ætlun löggjafans, alþingis, að skapa meiri sátt og frið um skipan í dómaraembætti með því að bera ætti ákvörðunina undir þingið hafa þau áform orðið að engu í höndum þingsins sjálfs.

Augljóst er að þingið vill ekki að dómarar sjálfir eða dómnefnd ráði hverjir séu dómarar. Þingið vill á hinn bóginn hafa hönd í bagga eftir að ráðherra hefur skoðað tillögu dómnefndar og sagt sína skoðun. Nú er spurning hvort þingið ræður við sitt hlutverk þegar dómnefnd og ráðherra eru ekki samstiga.

Að ætla að láta Pírata ráða nokkru í tengslum við ákvörðun af þessu tagi svertir aðeins ásýnd Alþingis. Þeir þora ekki að standa að neinum slíkum málum og eiga því í raun ekkert erindi á alþingi.

Jafnan hefur veiting ríkisborgararéttar verið eftir tveimur leiðum: á vettvangi framkvæmdavaldsins annars vegar og löggjafarvaldsins hins vegar. Þingmenn taka afstöðu til lagafrumvarps með nöfnum þeirra sem sækja um ríkisborgararétt eftir þeirri leið. Nú treystir Birgitta Jónsdóttir, þingleiðtogi Pírata, sér ekki til að taka afstöðu til frumvarps af þessu tagi. Hún sagði á alþingi miðvikudaginn 31. maí:

„Það er skringilegt að Alþingi sé að skipta sér af þessum málaflokki á þennan hátt og ég myndi mjög gjarnan vilja sjá að hægt sé að veita ríkisborgararétt með undanþágum, eins og við erum að gera hér, á annan veg.“

Ákvarðanafælni Pírata er svo átakanleg að þeir eiga í raun ekkert erindi á starfsvettvang sem snýst um að taka ákvarðanir. Að laga störf alþingis að fælni Pírata er fráleitt, miklu nær er að þeir bjóðist ekki til að taka þingstörfin að sér. Þeir sem kjósa Pírata kaupa köttinn í sekknum.