26.6.2024 9:43

Assange sekur – fær frelsi

Í The New York Times segir miðvikudaginn 26. júní að samningurinn sem Assange gerði við bandaríska ákæruvaldið um að játa á sig sekt vegna eins ákæruliðs til að fá frelsi sé „vondur fyrir bandarískt fjölmiðlafrelsi“.

Ástralinn Julian Assange getur um frjálst höfuð strokið í dag (26. júní) þegar hann kemur til Canberra, höfuðborgar Ástralíu, frá bandarísku Kyrrahafseyjunni Saipan í Norður-Mariana-eyjaklasanum þar sem hann lýsti sig sekan samkvæmt bandarískum lögum um njósnir fyrir að hafa nálgast og birt hernaðarleg leyndarskjöl Bandaríkjanna undir merkjum WikiLeaks.

Skjölin tengdust hernaði Bandaríkjanna í Afganistan og Írak. Assange hét því fyrir rétti að eyðileggja þessi gögn.

Nú eru tólf ár liðin frá því að Assange lokaði sig inni í sendiráði Ekvador í London til að skjóta sér undan framsali til Svíþjóðar vegna ásakana um kynferðisbrot. Þegar Assange yfirgaf sendiráðið þar sem hann dvaldist undir lokin í óþökk stjórnvalda Ekvador handtóku Bretar hann og hefur hann dvalist í fimm ár í breska Belmarsh-fangelsinu á meðan deilt hefur verið um framsal hans til Bandaríkjanna þar sem hann ætti allt að 175 ára dóm yfir höfði sér.

Screenshot-2024-06-26-at-09.41.10Juilan Assange fær frelsi eftir 12 ára innilokun.

Mánudaginn 24. júní var tilkynnt að samkomulag hefði tekist milli bandarískra stjórnvalda og lögmanna Assange um það sem síðan hefur gerst. Þennan sama mánudag flaug hann í vél sem stjórn Ástralíu útvegaði (en Assange þarf að greiða 520.000 dollara fyrir flugferðina) frá London til Saipan. Þar réttaði Ramona Mangola dómari yfir honum þriðjudaginn 25. júní og sagði að 62 mánuðir í bresku fangelsi væru honum hæfileg refsing, hann væri því frjáls ferða sinna. „Ég vona að þú hefjir nýtt líf þitt á jákvæðan hátt,“ sagði dómarinn og kvaddi Assange með hamingjuóskum um 53. afmælisdaginn í næstu viku.

Ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Ástralíu hefur beitt sér af þunga fyrir lausn í máli Assange og notið þar stuðnings Caroline Kennedy, sendiherra Bandaríkjanna í Canberra. Þá segir í breskum fréttum að Bandaríkjastjórn hafi talið heppilegt að binda enda á þrætur um framsalið í Bretlandi fyrir kosningar þar. Með breska Verkamannaflokkinn við völd kynni Assange einfaldlega að verða sleppt úr Belmarsh-fangelsinu.

Í The New York Times segir miðvikudaginn 26. júní að samningurinn sem Assange gerði við bandaríska ákæruvaldið um að játa á sig sekt vegna eins ákæruliðs til að fá frelsi sé „vondur fyrir bandarískt fjölmiðlafrelsi“.

Segir blaðið að í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sé litið á söfnun og birtingu upplýsinga sem ríkisstjórnin telur trúnaðargögn sem afbrot og með því verði til hrollvekjandi fordæmi fyrir blaðamenn. Það sé þó huggun harmi gegn að vegna samnings Assange um málið sé ekki hætta á að það fari fyrir hæstarétt til endanlegrar staðfestingar á svo þröngu viðhorfi til fjölmiðlafrelsis.

Julian Assange var gestur Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, hér um árið þegar áform voru uppi um að breyta Íslandi í eins konar frísvæði fyrir blaðamenn á gráu svæði. Dómurinn yfir Assange sýnir að hann stundaði ekki blaðamennsku með WikiLeaks.

Þá hefur því oftar en einu sinni verið hreyft að Assange fengi hér hæli. Í því sambandi mátti skilja fréttir á þann veg að Assange væri við dauðans dyr í breska öryggisfangelsinu. Þess vegna kemur þægilega á óvart að sjá hve vel Assange ber sig á myndum sem nú birtast af honum frjálsum.