6.9.2019 9:08

Áslaug Arna ráðherra - villa Þorgerðar Katrínar

Ríkisstjórn Íslands ætti að rannsaka reynslu einstakra ríkja af þátttöku í belti-og-braut-áætluninni og birta almenningi skýrslu um það efni.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar alþingis, verður í dag (6. september) skipuð í embætti dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi. Hún tekur við embættinu af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem bætti því við sig þegar Sigríður Á. Andersen baðst lausnar 13. mars 2019 eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) vegna skipunar dómara í landsrétt. MDE hefur ekki lokið meðferð málsins í stærri deild sinni.

Þegar Eysteinn Jónsson Framsóknarflokki, f. 13. nóvember 1906, var skipaður fjármálaráðherra 28. júlí 1934 var hann 27 ára. Enginn hefur orðið yngri ráðherra hér á landi. Áslaug Arna er fædd 30. nóvember 1990 og er því 28 ára þegar hún sest í ráðherrastólinn.

Eysteinn varð farsæll og mikils metinn stjórnmálamaður, sat á þingi 1933 til 1974. Skjótur frami Áslaugar Örnu, hún var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins árið 2015 og á þing árið 2016, sýnir að hún nýtur mikils trausts samstarfs- og flokksmanna. Tillaga Bjarna Benediktssonar um hana sem ráðherra var samþykkt einróma í þingflokki sjálfstæðismanna fimmtudaginn 5. september. Rökstuddi Bjarni tillögu sína meðal annars með því að vísa til hve öruggri hendi Áslaug Arna hefði leitt þriðja orkupakkamálið á vettvangi utanríkismálanefndar þingsins. Undir það mat flokksformannsins skal tekið um leið og Áslaugu Örnu er árnað heilla í ráðherraembættinu.

AslaugarnathorgerdurthingÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í þingsal. Myndin birtist á vefsíðunni viljinn.is og tók Rúnar Gunnarsson hana.

Villa Þorgerðar Katrínar

Það var skrýtið að heyra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, býsnast yfir því í Kastjósi að kvöldi fimmtudags 5. september að rætt væri um viðskipti og varnarmál á sama fundi íslenskra ráðamanna með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Þegar stjórnmálamenn búa sér til röksemdir eins og þessar til þess eins að ráðast á pólitíska andstæðinga lenda þeir fljótt í vandræðum.

Það er engu líkara en Þorgerður Katrín kjósi að líta algjörlega fram hjá því hve mikil áhersla er lögð á viðskiptaþvinganir í von um að þær dugi til að knýja fram hagfelldari niðurstöðu en fengist með því að beita vopnum.

Viðskipti og varnir eru í mörgu tilliti tvær hliðar á sama peningi. Ríkisstjórnir Danmerkur og Bandaríkjanna tóku til dæmis höndum saman um flugvallargerð á Grænlandi til að útiloka að viðskiptin lentu í höndum Kínverja.

Dramatísk og orðljót viðbrögð Jins Zhiji­ans, sendiherra Kína á Íslandi, við því sem Mike Pence sagði hér endurspegla hve kínverskum stjórnvöldum er mikið í mun að stofna til viðskipta við Íslendinga. Sendiherrann hefur greinilega fyrirmæli um að tengja Ísland fjárfestingar- og mannvirkjaáætlun Kínastjórnar, belti og braut.

Ríkisstjórn Íslands ætti að rannsaka reynslu einstakra ríkja af þátttöku í belti-og-braut-áætluninni og birta almenningi skýrslu um það efni. Þar er miklu stærra og nærtækara mál á döfinni en þriðji orkupakkinn svo að dæmi sé tekið, raunverulegt þjóðaröryggismál þar sem viðskipta- og öryggishagsmunir tvinnast saman á nýjan hátt.