18.2.2020 7:49

Áskoranir í samkeppnismálum

Kerfis-sjónarmið í samkeppnismálum geta verið góð og gild en gangi þau gegn raunverulegum hagsmunum neytenda snýst í andhverfu sína að beita þeim.

Samkeppniseftirlitið setti Festi, móðurfélagi N1 og Krónunnar, það skilyrði við sameiningu að fyrirtækið seldi Krónu-verslunina á Hvolsvelli. Allir sem til þekkja vita að í því fólst mikill ávinningur fyrir íbúa á Hvolsvelli og íbúa Rangárþings eystra að Krónan var opnuð þar. Langvinnt baráttumál fyrir að fá lágvöruverslun í byggðarlagið náðist.

996729Frá Hvoslvelli. (Mynd: Árni Sæberg, mbl.is)

Nú þegar stjórnendur Festar vilja fara að skilyrðum samkeppniseftirlitsins rísa neytendur og viðskiptavinir Krónunnar á Hvolsvelli og andmæla.

„Þau vilja ekki missa Krónuna úr bænum. Menn telja sig verr setta með að fá samkeppnisaðila okkar í bæinn í staðinn fyrir okkur,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, í samtali við Morgunblaðið í dag (18. febrúar), Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að ákvörðun sveitarstjórnar um að hafna framleigu húsnæðisins til annarra hafi verið tekin með hagsmuni íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi. Mikil ánægja sé með verslunina og fólkið vilji ekki breytingar.

Á sínum tíma var ráðist í verulegar framkvæmdir til að tryggja Krónunni viðunandi húsnæði en á hæðinni fyrir ofan verslunina eru skrifstofur sveitarfélagsins sem á allt húsið. Enn eru sjö ár eftir af leigusamningi sem gerður var til að Krónan yrði starfrækt á Hvolsvelli.

Spurður um næstu skref í málinu segir forstjóri Festar að nú búi fyrirtækið sig undir viðræður við samkeppniseftirlitið um breytingar á sáttinni. Krónan verði áfram á Hvolsvelli.

„Vonandi komast menn að þeirri niðurstöðu að sáttin sé ekki að virka. Þessi skilyrði eru ekki neinum til hagsbóta hér úti á landi þótt það kunni að eiga við í höfuðborginni þar sem styttra er á milli verslana og meira val. Það besta í stöðunni væri að þetta skilyrði félli niður við endurskoðunina,“ segir Anton Kári Halldórsson.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, birtir grein í Fréttablaðinu í dag um enn eina byltinguna sem við blasir í fjarskiptamálum. Henni lýkur á þessum orðum:

„Ef vel tekst til mun ný tækni brúa fjarskiptagjána sem í dag skilur að þéttbýlisstaði í dreifbýli og suðvesturhornið. Uppbygging alls landsins er risavaxið verkefni sem ekkert eitt fjarskiptafyrirtæki mun ráða við. Leiðin að þessu marki er samnýting grunninnviða, regluverk sem horfir fram á við en ekki í baksýnisspegilinn og umhverfi sem tryggir sem skynsamlegasta nýtingu þeirra fjármuna sem fyrirtækin hafa yfir að ráða til fjárfestinga. Mikið liggur við að ríki, sveitarfélög og fjarskiptafyrirtæki vinni saman að þessu mikilvæga verkefni.“

Miðað við forsögu þessa máls er augljóst að orðum sínum beinir Orri Hauksson að samkeppniseftirlitinu en fjarskiptafyrirtækin vilja að þau geti sameiginlega staðið að samnýtingu grunninnviða vegna tæknibreytinganna.

Kerfis-sjónarmið í samkeppnismálum geta verið góð og gild en gangi þau gegn raunverulegum hagsmunum neytenda snýst í andhverfu sína að beita þeim. Önnur úrræði er jafnan unnt að rökstyðja sé vilji til þess. Samkeppniseftirlitið stendur hér frammi fyrir skýrum áskorunum