15.9.2020 9:38

ASÍ-elítan vill hefndir

Nú er hoggið í sama knérunn til að hefna fyrir að samið var við flugfreyjur og -þjóna. Það er ekki gert af umhyggju fyrir launþegum hjá Icelandair heldur til að sýna vald elítunnar í ASÍ.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), birtir í Morgunblaðinu í dag (15. september) grein til að árétta að hún vilji ekki eiga samstöðu með forystumönnum Icelandair og öðrum sem vilja taka þátt í að tryggja framtíð félagsins með þátttöku í hlutafjárútboðinu nú í vikunni.

Fyrir Drífu er forgangsmál að hefna sín á Icelandair vegna þess að stjórnendur félagsins ákváðu að segja upp flugfreyjum og -þjónum þegar þeir mátu stöðuna á þann veg að enginn annar kostur væri í stöðunni vegna langvinnra, árangurslausra kjaraviðræðna og pattstöðu í þeim. Þessi ákvörðun varð til þess að lausn fannst á kjaradeilunni og meirihluti þeirra sem áttu hlut að máli samþykkti hana.

Þeir sem urðu undir í þessum átökum var forystusveit ASÍ með Drífu Snædal, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Ragnar Þór Ingólfsson í fararbroddi. Síðan hafa þau ráðist að stjórnendum Icelandair með dylgjum og tilraunum til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir festi fé í hlutabréfum Icelandair. Í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 12. september sagði Sólveig Anna að einhver tilbúinn „klíka“ hefði „ákveðið sín á milli að það eigi að nota lífeyrissparnaðinn okkar, láglaunakvenna og -karla um land allt, til að bjarga Icelandair.“ Þar sagði einnig: „Kjörnir fulltrúar launafólks sem stigið hafa fram til að benda á staðreyndir málsins hafa verið uppnefndir „skuggastjórnendur“, jafnvel þótt þeirra framganga hafi ekki falið í sér neitt nema spurningar og umræðu fyrir opnum tjöldum.“

Með þessum orðum er reynt að bera blak af Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sem fer mikinn gegn Icelandair og ber fram grófar ásakanir á hendur stjórnendum félagsins um leið og hann lætur eins og stjórnendur lífeyrissjóða eigi að fara að sínum ráðum.

Í fyrrnefndri grein kemst Drífa Snædal svo að orði að fyrir stjórnendum Icelandair vaki „að tæla til sín eftirlaunasjóði vinnandi fólks“.

Á aðra hönd láta þessi forkólfar ASÍ eins og þeir berjist fyrir hag starfsmanna Icelandair sem allir hafa í atkvæðagreiðslu samþykkt kjarasamninga sína við félagið og stuðlað þannig að framtíð þess og hins vegar vilja forkólfarnir hindra að í stjórnum lífeyrissjóða verði keypt hlutabréf í Icelandair og þannig vegið að framtíð fyrirtækisins og atvinnuöryggi þeirra sem hjá því starfa.

1201647Óvildin í garð Icelandair hjá verkalýðsrekendunum á ekkert skylt við umhyggju fyrir hag starfsmanna félagsins, hún er öll vegna reiðinnar yfir því að ekki tókst að nýta sér kjaradeilu flugfreyja og -þjóna til að stofna til allsherjaruppnáms á vinnumarkaðnum og eyðileggja lífskjarasamningana.

Sambandsleysi forystu ASÍ við það sem í raun gerðist í kjaraviðræðunum birtist skýrast í pistli sem Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, birti í sama mund og lausnin fæddist í flugfreyjudeilunni. Þar sagði:

„Það sem er hræðilegast við aðgerðir Icelandair er að þær voru þaulskipulagðar. Markmiðið var alltaf að reyna að brjóta stéttarfélag flugfreyja á bak aftur og ganga þannig í augun á fjárfestum, einkum erlendum. Icelandair vildi aldrei semja. En þar gleymist hverjir eru helstu bakhjarlar Icelandair, það er þjóðin í gegnum lífeyrissjóðina og svo veittan og mögulegan ríkisstuðning.“

Þarna skrifar sú sem taldi laugardaginn 18. júlí að ASÍ hefði undirtökin gegn Icelandair vegna ítaka í lífeyrissjóðunum. Það reyndist rangt mat þá. Nú er hoggið í sama knérunn til að hefna fyrir að samið var við flugfreyjur og -þjóna. Það er ekki gert af umhyggju fyrir launþegum hjá Icelandair heldur til að sýna vald elítunnar í ASÍ.