Áramót í skugga stríðs
Hér verður sérstaklega hugað að því hvað fulltrúar flokkanna höfðu að segja um mál málanna á árinu, stríðið í Úkraínu.
Í Morgunblaðinu birtast áramótahugleiðingar fulltrúa átta þingflokka, sjö flokksformenn skrifa og þingmaður Pírata.
Hér verður sérstaklega hugað að því hvað greinarhöfundar höfðu að segja um mál málanna á árinu, stríðið í Úkraínu. Það mótar heimsmyndina til langrar framtíðar. Sovétríkin urðu friðsamlega að engu um jólin 1991 ófriðurinn vegna upplausnar þeirra varð ekki fyrr en um þremur áratugum síðar. Hann má öðrum þræði rekja til andvaraleysis þeirra sem töldu Kremlverja horfna frá beitingu hervalds í þágu stórveldisdrauma.
Tapi Úkraínumenn verður Moldóva næst fyrir barðinu á rússneska hernum og ótti annarra nágrannaþjóða Rússlands vegna eigin öryggis magnast. Sigri Úkraínumenn er spurning hvað hernaðarmáttur Rússa og stríðsvilji lamast til langrar framtíðar.
Aðeins tveir flokksformenn ræða efnislega um Úkraínustríðið, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Um stríðið og afleiðingar þess þegja: Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokknum, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn, Inga Sæland Flokki fólksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki.
Tvö nefna Úkraínu í framhjáhlaupi: Björn Leví Gunnarsson Pírötum og Kristrún Frostadóttur Samfylkingu.
Katrín Jakobsdóttir segir stríðið hafa breytt stöðunni í Evrópu og fundir hennar alþjóðavettvangi á árinu hafi nær allir snúist „um öryggismál með einum eða öðrum hætti“. Vegna þessarar dapurlegu þróunar hafi Íslendingar talað „skýrt og afgerandi“: tekið fullan þátt í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi, tekið á móti rúmlega 2000 úkraínskum flóttamönnum og sett umtalsverða fjármuni í mannúðaraðstoð, efnahagsaðstoð og búnað til að styðja úkraínsku þjóðina. Þá hafi Íslendingar lagt áherslu á þann „sjálfsagða rétt Úkraínumanna að vera frjáls og fullvalda þjóð og að þessu stríði verði að linna“. Það sé forsenda farsældar til framtíðar í Evrópu.
Bjarni Benediktsson segir heimsmynda hafa breyst árið 2022. Rússar hafi ekki aðeins ráðist á saklausa íbúa Úkraínu „heldur þau grunngildi sem við Íslendingar stöndum vörð um og byggjum fullveldi okkar á“. Langt sé síðan svo afdrifaríkir atburðir hafi orðið í veröldinni og samstaða vinaþjóða hafi sjaldan skipt meira máli en nú. Íslendingar standi með Úkraínu „og þeim gildum sem vestræn ríki í Atlantshafsbandalaginu munu ávallt verja“. Þessi afstaða risti djúpt. Fyrir herlausa þjóð í Norður-Atlantshafi sem barist hafi fyrir fullveldi sínu sé stríðið sterk áminning um mikilvægi öryggis- og varnarmála á svæðinu.
Bjarni Benediktsson fer þarna orðum um meginboðskapinn í ályktunum alþjóðafundanna sem Katrín Jakobsdóttir nefnir í grein sinni. Yfirlýsingarnar sem hún hefur ritað undir fyrir Íslands hönd snúast í raun um tvennt: stuðning við Úkraínumenn og hernaðarlegar varnaraðgerðir til að halda Rússum í skefjum eftir að þeir hafa verið brotnir á bak aftur. Þessi afstaða verður að birtast í endurskoðaðri þjóðaröryggisstefnu Íslendinga.