5.4.2017 11:06

Ár frá afsögn Sigmundar Davíðs

Allt það sem gerst hefur í stjórnmálunum á þessu eina ári sýnir að réttmætt var að efna til kosninga haustið 2016.

Í dag er eitt ár liðið frá því að forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gekk á fund forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í fylgd embættismanna með ríkisráðstökuna án þess þó að eigin sögn að leggja til þingrof og nýjar kosningar. Forseti sá ástæðu til að boða til blaðamannafundar á Bessastöðum eftir að hafa kvatt ráðherrann til að segja frá því sem þeim fór í milli svo að ráðherrann afflytti það ekki. Sigmundur Davíð hélt hins vegar í Alþingishúsið þar sem þingflokkur Framsóknarmanna sat á fundi, var honum neitað um að koma inn á fundinn en þess í stað tilkynnt að hann nyti ekki lengur stuðnings til að sitja sem forsætisráðherra.

Þessi atburðarás öll er þó miklu skrautlegri en að ofan er lýst og er þá sleppt að segja frá því sem fór á milli Sigmundar Davíðs og núverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, þennan dag. Varð þá endanlegur trúnaðarbrestur í samskiptum þeirra eins og fram kom nokkrum mánuðum síðar fyrir kosningarnar 29. október 2016.

Frá því að þessir atburðir urðu og raunar áður eins og sjá má hér á síðunni var ég sannfærður um að rjúfa ætti þing haustið 2016 og efna til kosninga til að ríkisstjórn fengi nýtt umboð til að takast á við gjörbreyttar og betri aðstæður í efnahagsmálum. Vegna ástandsins innan Framsóknarflokksins var raunar ekki forsvaranlegt annað en að leggja mál í dóm kjósenda.

Allt það sem gerst hefur í stjórnmálunum á þessu eina ári sýnir að réttmætt var að efna til kosninga haustið 2016. Mesta breytingin felst í brotthvarfi Samfylkingarinnar og að risið lækkaði á Pírötum, þeir bættu við sig fylgi í kosningunum en urðu bitlausir vegna þess að kjósendur áttuðu sig á að þeir eru hvorki fugl né fiskur þegar að stjórnmálaákvörðunum kemur.

Myndin er tekin af vefsíðu utanríkisráðuneytisins og sýnir Össur Skarphéðinsson og Barack Obama á NATO-fundi í Strassborg-Kehl 5. apríl 2009. 

Á þessum degi sögulegra atburða í íslenskri stjórnmálasögu birtast tvær árásargreinar á Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í Fréttablaðinu. Önnur eftir Kristján Guy Burgess, fyrrv. framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, sem átti að leiða flokkinn til mikilla sigra eftir að hafa aðstoðað Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra við að klúðra ESB-aðildarumsókninni, vonarneista Samfylkingarinnar sem breyttist í martröð. Telur Kristján Guy að Bjarni sé ekki nógu mikið á fundum með stórmennum erlendis. Greinin er líklega skrifuð í tilefni af því að 5. apríl 2009 sat Össur leiðtogafund NATO í Strassborg-Kehl fyrir hönd Jóhönnu, hitti þar Barack Obama, ræddi við hann um jarðhitamál og fékk tekna mynd af sér með honum. Mátti skilja Össur þannig að Obama væri á leið til Íslands vegna fundar þeirra – Obama er ókominn og Össur ekki lengur á þingi.

Hin greinin eftir Kára Stefánsson. Þar er Bjarni krafinn svara um gróusögur sem Kári segir að gangi um hann. Grein Kára er dæmigert framlag til stjórnmálaumræðna eftir hrun þar sem alið er á tortryggni og úlfúð með flutningi á gróusögum – að andlag slíkra sagna sér krafið að staðreyna efni þeirra er nýmæli sem virðist gripið til í því skyni að halda lífi í sögunum og beita aðferðinni „let him deny it“.

Hverjar sem breytingarnar eru sitja sumir alltaf á sama stað.