31.12.2020 10:47

Ár áhættunnar

Nú er því tímabært að taka áhættu á nýjum grunni. Unnt er að vega og meta kosti í stöðunni með vísan til bóluefna.

Árið 2020 kveður og þess verður minnst sem sögulegs farsóttarárs þegar mannkyn varð að draga sig í hlé vegna sóttvarna. Í upphafi árs tóku kínversk yfirvöld þá áhættu að bregðast ekki á markvissan hátt við útbreiðslu Wuhan-farsóttarinnar til annarra landa. Þau notuðu alræði heima fyrir til að halda fólki í greip sinni í von um að hemja farsóttina sem síðan hlaut heitið COVID-19 en gerðu ekkert til að hindra að hún bærist til annarra landa.

Ráðamenn í Peking beita Ástrali nú refsiaðgerðum af því að stjórn þeirra varð fyrst til að krefjast óhlutdrægrar alþjóðlegrar rannsóknar á upptökum sóttarinnar. Á dögunum var Zhang Zhan, lögfræðingur og blaðamaður frá Shanghai, dæmd i fjögurra ára fangelsi fyrir að segja fréttir og birta myndbönd í febrúar sem sýndu yfirfull sjúkra- og líkbrennsluhús í Wuhan.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók þá áhættu að grípa ekki til annarra ráðstafana snemma árs en að loka á flug frá Kína. Hann hélt á kosningaári að sér tækist í skjóli þess banns að hljóta nægilegt traust til endurkjörs. Leikbragðið misheppnaðist og Trump er á útleið.

Kínverjar hafa sótt í sig veðrið efnahagslega á árinu miðað við aðrar þjóðir en andúð á stjórnarháttum þeirra og þjóðfélagsgerð magnast. Rétt fyrir jól samþykkti danska þingið til dæmis mjög gagnrýna ályktun í garð kínverskra stjórnvalda. Sé Huawei og 5G-væðingin notuð sem mælikvarði fara Kínverjar halloka.

Risk-takingAllar þjóðir hafa orðið illa úti í baráttu við COVID-19, hver með sínum hætti. Undir árslok er úrslitaorrustan hafin með nýjum vopnum þegar hvert bóluefnið eftir annað kemur til sögunnar. Á undravert skömmum tíma tókst að framleiða bóluefni og þróa nýjar aðferðir við það. Nú er því tímabært að taka áhættu á nýjum grunni. Unnt er að vega og meta kosti í stöðunni með vísan til bóluefna.

Sagt er að núverandi ástand kosti íslenska þjóðarbúið um milljarð króna á dag. Fyrir brot af þeim kostnaði má kaupa bóluefni sem dugar margfalt til að bólusetja alla þjóðina: taka áhættu með bóluefni í stað þeirrar stöðugu óvissu sem nú ríkir þar sem er grunnt á nornaveiðum þegar uppsöfnuð spenna og vanmáttarkennd fær útrás.

Það er holur hljómur í málflutningi þeirra sem standa gegn því að áhætta með bóluefnum sé tekin. Að vísa þar til ESB er ótrúverðugt. Stjórnarstofnanir ESB koma almennt illa frá viðureigninni við veiruna ­– hvers vegna að binda trúss sitt við þær þegar annað er í boði nú eins og hefur verið allt árið?

Alvarlegasta farsóttar-tilvikið hér á landi í ár varð meðal eldri borgara undir handarjaðri Landspítalans á Landakoti. Við því hafði verið varað að Landakot leyfði ekki ítrustu sóttvarnir. Áhætta var tekin með því að hafna samstarfi við einkaaðila um betra húsnæði sem stóð þó til boða.

Hver eru rökin fyrir að veðja svo mjög á ríkisrekstur í heilbrigðisþjónustu og hafna samstarfi við einkaaðila? Hvers vegna voru ekki fyrr keyptir fleiri skammtar af bóluefni fyrir landsmenn? Er það ótti við áhættu ríkinu i óhag sem ræður? Hvað með þjóðina?

Lesendum síðu minnar þakka ég samfylgdina á árinu 2020.