3.4.2018 12:02

Aprílgabb: RÚV sat hjá, BBC hljóp

Miðað við margt af því sem FRÚ flytur okkur er vissulega þakkarvert að vita að einhvers staðar skuli þó mörkin dregin.

Í Morgunblaðinu  í dag (3. apríl) er sagt frá því að fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) hafi ákveðið að verða ekki með neitt aprílgabb í ár til að sporna gegn falsfréttum. Rætt er við Sigríði Hagalín varafréttastjóra sem segir:

„Formlega ástæðan er sú að eftir að umræða hófst um falsfréttir í erlendum og innlendum miðlum ákváðum við að fylgja systurstöðvum okkar annars staðar á Norðurlöndum. Þær hættu að vera með aprílgabb út af þessari umræðu um hvort fréttamiðlum væri treystandi eða ekki. Sú lína var lögð að ríkismiðlar gætu ekki leyft sér að standa í þessu.“

Markvisst hefur verið unnið að því undanfarin ár að afmá ríkistimpillinn af ríkisútvarpinu með því að nota skammstöfunina RÚV. Of langt væri gengið með því að segja að í þessu felist að sigla undir fölsku flaggi. Hvað sem því líður hentar FRÚ vel að verða hluti af ríkismiðlaneti Norðurlanda þegar kemur að því að verja skort á aprílgabbi árið 2018. Norrænir ríkismiðlar starfi samkvæmt þeirri „línu“ að þeir geti „ekki leyft sér að standa í þessu“, það er að skemmta hlustendum sínum með aprílgabbi, það sé í raun fyrir neðan virðingu þeirra, má skilja af orðunum.

Miðað við margt af því sem FRÚ flytur okkur er vissulega þakkarvert að vita að einhvers staðar skuli þó mörkin dregin. Hitt er þó jafnvel fréttnæmara að samvinna norrænu ríkismiðlanna sé svo náin að fréttastofur þeirra starfi samkvæmt sömu línu. Hvar er unnt að fræðast um hana? Hver mótar þessa línu?

Þeir sem fjölluðu um fréttir dagsins í morgunþætti BBC-sjónvarpsins hlupu apríl og leiddu áhorfendur með sér þegar þeir kynntu fréttina í The Observer um að ítalskt fyrirtæki hefði hannað tjámerki (emoji) sem sýndi annars vegar reiðan breskan ESB-úrsagnarsinna og hins vegar ESB-aðildarsinna með stjörnur í augunum (sjá mynd).

Tjámerkin úr The Observer: Breskur kúluhattur og frönsk alpahúfa – ESB-úrsagnarsinni og ESB-aðildarsinni.

Þeir sem skýrðu frétt The Observer í BBC áttuðu sig á að þeir hefðu verið plataðir þegar áhorfendur bentu þeim á heiti þess sem skrifaði fréttina: Scherzo Primavera, sem þýða má sem Vorgaman.

Í fréttinni sagði að breskir þingmenn hefðu sameinast um að fordæma þessi opinberu tjámerki þau „ýttu undir sundurlyndi og hættuástand“. Merkin eru kölluð Brexit Bulldog og Starry Blue á ensku. Þau voru sögð hönnuð með það fyrir augum að auðvelda fólki að auðkenna afstöðu sína til Brexit á samfélagsmiðlum. Haft er eftir einum viðmælanda í falsfréttinni að notkun pólitískra tjámerkja á samfélagsmiðlum gæti orðið til þess að endurvekja traust á miðlunum.