22.10.2022 11:47

Andvaka sjóðstjórar

Með lögum var fjármálaráðherra falið að vinna að lausn málsins og fimmtudaginn 20. október kynnti hann þrjá kosti í stöðunni, enginn þeirra er eðli málsins samkvæmt góður.

Íbúðalánasjóður var kominn að þolmörkum þegar honum var skipt og til varð ÍL-sjóður með lögum nr. 151/2019 sem tóku gildi 31. desember 2019. Var fjármála- og efnahagsráðherra falin yfirstjórn ÍL-sjóðs og yfirumsjón með úrvinnslu og uppgjöri eigna og skulda sem ÍL-sjóður tók við í uppskiptingunni og er þar um að ræða útgefnar skuldir sjóðsins, eldra útlánasafn auk verðbréfa- og innlánasafns.

Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 20. október 2022 segir að markmið uppgjörs og úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs sé að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs. Þann fjárhagsvanda megi rekja til reksturs og fjármögnunarfyrirkomulags Íbúðalánasjóðs og stórfelldra uppgreiðslna á útlánum sjóðsins á síðustu árum.

Þarna er lýst ósjálfbærri stöðu og þroti húsnæðislánakerfis sem var um árabil við lýði hér.

20220912-_DSC2416-1-Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnir kosti við uppgjör IL-sjóðs 20. október 2022 (mynd af vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytis).

Með lögum var fjármálaráðherra falið að vinna að lausn málsins og fimmtudaginn 20. október kynnti hann þrjá kosti í stöðunni, enginn þeirra er eðli málsins samkvæmt góður, enginn þeirra kemur til framkvæmda án þess að alþingi taki afstöðu til þeirra. Ríkið er í einfaldri ábyrgð, í henni felst að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda, auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags.

Með þetta í huga er einkennilegt að lesa forsíðufrétt og enn lengri frásögn inni í Morgunblaðinu í dag um að fjármálaráðherra hafi „hótað“ lífeyrissjóðum eða öðrum með kynningu sinni. Hún hafi verið þess eðlis að „margir starfsmenn lífeyrissjóða og sjóðastýringafyrirtækja vöktu nær alla aðfaranótt föstudagsins til þess að átta sig á hvaða áhrif yfirlýsing ráðherra myndi hafa á verðmyndun með skráð skuldabréf ÍL-sjóðs, þegar markaðir opnuðu aftur“ að morgni föstudags 21. október.

Þessir úrvinda starfsmenn hafi m.a. leitað „ásjár Kauphallar Íslands og var það meining sumra að stöðva ætti viðskipti með skuldabréfin, svo mikil óvissa væri komin upp varðandi vænt uppgjör þeirra“. Kauphöllin varð ekki við ósk þeirra. Þá er tekið fram að föstudaginn 21. október hafi ekki verið nein viðskipti með skuldabréf í Kauphöllinni. Er það fréttnæmt?

Þá segir blaðamaður að ráðherrann vilji „í skjóli takmarkaðrar ríkisábyrgðar“ losa ríkissjóð undan því að standa skil á skuldbindingum sem „stofnun í hans nafni stofnaði til fyrir tæpum tveimur áratugum síðan“.

Þetta er undarlegt orðalag um skyldu ráðherrans til að gæta hagsmuna ríkissjóðs í samræmi við lög frá 2019. Hvaða „stofnun“ er þarna um að ræða?

Fréttin er byggð á samtölum við fulltrúa lífeyrissjóða sem hafa augljóslega gefið sér einhverja niðurstöðu í þessu máli. Því er blákalt haldið fram að "...ríkissjóður [sé] með þessu að reyna að fara í vasa almennings". Hvernig samrýmist þetta því að höfuðstóll og áfallnir vextir verði gerðir upp að fullu? Hvernig er unnt að líkja því við greiðslufall?

Hér er vissulega vandasamt úrlausnarefni á döfinni. Það auðveldar ekki úrlausnina að fara fram úr sér í umræðum um hana. Málið verður rætt á alþingi þriðjudaginn 25. október.