19.2.2025 9:54

Alvara magnast í styrkjamáli Ingu

Styrkjamálið svonefnda kemst á nýtt stig vegna ásakana fjármálaráðherra í garð embættismanna sinna. Það er óhjákvæmilegt að umboðsmaður alþingis skilgreini ábyrgð þeirra.

Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra Viðreisnar, segir í Morgunblaðinu í dag að vandræða vegna styrkjamáls Flokks fólksins sé að leita í fjármálaráðuneytinu.

Eitt af atriðunum í álitsgerð Flóka Ásgeirssonar lögmanns til fjármálaráðherra sem hvítþvær Ingu Sæland er að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi ekki farið að rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaganna og kannað hvort kennitala Ingu væri styrkhæf og vegna þess hefðu þeir ekki getað leiðbeint henni samkvæmt 7. gr. laganna. Þeir hefðu því tvívegis gerst brotlegir við stjórnsýslulögin.

Í þessari sömu álitsgerð kemur hins vegar jafnframt fram að alls ekki er ljóst hvort þessi skylda hafi í raun hvílt á starfsmönnum fjármálaráðuneytisins.

Screenshot-2025-02-19-at-09.53.00Morgunblaðið 19. febrúar 2025.

Í upphafi styrkveitinga til stjórnmálaflokka árið 2006 átti að beina umsóknum um slíka styrki til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, síðar innanríkisráðuneytisins. Eftir breytingu á stjórnarráðslögunum árið 2011 var stjórnarmálefnið fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og þar með upplýsingaskylda vegna þeirra með forsetaúrskurði lagt til innanríkisráðuneytisins, síðar dómsmálaráðuneytisins.

Það er niðurstaða Flóka að valdbærni fjármála- og efnahagsráðuneytisins til töku ákvarðana varðandi styrkveitingar til stjórnmálaflokka hafi hvorki átt skýra stoð í lögum né ákvæðum forsetaúrskurða um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Þegar Daði Már varpar sök í styrkjamáli Ingu Sæland á starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins gengur hann gegn efasemdunum í lögfræðiálitinu sem hann segir í hinu orðinu að hann fylgi í einu og öllu. Tilgangurinn er augljós: að fría sig pólitískri ábyrgð og varpa henni á forvera sína.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins ætlar að taka þetta mál fyrir. Miðað við forherðingu fjármálaráðherra má ganga að því sem vísu að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni tefji eða stöðvi meðferð nefndarinnar á málinu.

Umboðsmaður alþingis segir að embætti sitt skipti sér ekki af þessu máli á meðan þingnefnd hafi það á sinni könnu. Með fullri virðingu fyrir þingnefndinni ætti hún að bíða álits umboðsmanns, það kæmi í veg fyrir tvíverknað hennar.

Styrkjamálið svonefnda kemst á nýtt stig vegna ásakana fjármálaráðherra í garð embættismanna sinna. Það er óhjákvæmilegt að umboðsmaður alþingis skilgreini ábyrgð þeirra. Þeir sitja nú undir alvarlegum ásökunum frá ráðherra sínum án þess að ljóst sé hvaða skyldur þeir höfðu með vísan til verkaskiptingar milli ráðuneyta.

Hafi embættismenn fjármálaráðuneytisins gerst sekir um afglöp vegna skorts á rannsókn á kennitölu Ingu Sæland, hvað má þá segja um rannsóknarskyldu Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar þær leiddu syngjandi Ingu Sæland í ríkisstjórnina?

Í þessu máli má engan tíma missa. Í æðstu stjórn landsins sitja ráðherrar sem fara með rangt mál að því er varðar grunnþátt lýðræðislegra stjórnarhátta, starfsemi stjórnmálaflokka.