30.4.2019 9:50

Alþýðusambandið snýst gegn markaðsbúskap

Þetta hefur ekkert með þriðja orkupakkann að gera heldur lýsir kúvendingu meðal forystumanna Alþýðusambands Íslands til markaðsbúskapar.

Fyrsta skrefið til að laga framleiðslu og dreifingu raforku á Íslandi að aðildinni að EES var stigið árið 2003 með setningu nýrra raforkulaga. Nýmælin fólust meðal annars í aðskilnaði samkeppnis- og einokunarþáttar í rekstri raforkufyrirtækja þannig að framleiðsla og sala voru aðskilin frá flutningi og dreifingu. Þá var félagslegum skyldum einnig létt af raforkufyrirtækjunum. Kostnaður fyrirtækjanna vegna óarðbærra eininga í aðveitu- og dreifikerfinu tók að endurspeglast í gjaldskrá þeirra. Vegna mikils flutningstaps í dreifikerfi Landsnets hefur gjaldskrá þess hækkað umtalsvert eftir að lögin frá 2003 tóku gildi. Verð á raforku lækkaði hins vegar eftir gildistöku laganna.

Meðal þeirra sem veittu umsögn um frumvarpið var Alþýðusamband Íslands og má sjá hana á vef alþingis. Í umsögninni frá 20. febrúar 2003 segir meðal annars:

„Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi. Lykillinn að því er að koma á samkeppnisumhverfi í framleiðslu, flutningi, dreifingu og sölu raforku. Alþýðusamband Íslands er hlynnt eðlilegri samkeppni og verðmyndun á markaði og að neytendur fái notið ábatans sem af því hlýst. Íslenskur raforkumarkaður er lítill í alþjóðlegum samanburði. Það er því ólíklegt að hér á landi muni ríkja fullkomin samkeppni á þessum markaði. Hins vegar er líklegra að hér muni ríkja einhverskonar fákeppni. Það er því ólíklegt að neytendur komi til með að njóta til fulls þeirrar hagræðingar sem ætlað er að ná fram með frumvarpinu.

Raforkan hefur löngum verið talið helsta samkeppnisforskot Íslands. Í frumvarpinu er engin umfjöllun um þetta heldur er einungis horft þröngt til neytendamarkaðarins. [...] Mikilvægt er að lögin rýri ekki umrætt samkeppnisforskot og þar með stöðu samkeppnisfyrirtækja.“

Þá veltir ASÍ fyrir sér hvernig neytendur geti nýtt sér samkeppni á orkumarkaði. Hvort þeir geti t.d. ráðið frá hvaða orkuframleiðanda þeir kaupa raforku eða hvort dreifingarfyrirtækið ráði því.

Forsetar-asiNý forysta ASÍ var kjörin í október 2018.  Frá vinstri:  Vilhjálmur Birgisson, 1. varaforseti, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Kristján Þórður Snæbjarnarson, 2. varaforseti. (Af vefsíðu ASÍ.)

Þessi umsögn gefur góða mynd af breytingunni sem var með innleíðingu fyrsta orkupakka ESB hér fyrir 16 árum. Þá var raforka skilgreind sem markaðsvara og Alþýðusamband Íslands fagnaði því en lýsti jafnframt áhyggjum yfir að fákeppni kynni að bitna á neytendum.

Nú þegar fjallað er um þriðja orkupakkann sem er reistur á þeim grunni sem hér var lagður 2003 og hróflar ekki við honum bregður svo við að Alþýðusamband Íslands sendir umsögn til alþingis sem stangast efnislega á við stefnu sambandsins árið 2003. Í umsögninni nú segir meðal annars:

„Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.“

Þetta hefur ekkert með þriðja orkupakkann að gera heldur lýsir kúvendingu meðal forystumanna Alþýðusambands Íslands til markaðsbúskapar. Að láta hana bitna á aðild Íslands að EES með þessum hætti og birtast í umsögn um þriðja orkupakkann án þess að hann gefi minnsta tilefni til þess sýnir fyrst og síðast hve afvegaleidd umræðan er miðað við það sem var árið 2003.