10.4.2018 11:41

Alþjóðalög skjól smáríkja

Í gærkvöldi (9. apríl) vorum við Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra frummælendur á fundi sem Týr, félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, hélt í Valhöll.

Í gærkvöldi (9. apríl) vorum við Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra frummælendur á fundi sem Týr, félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, hélt í Valhöll. Umræðuefnið var: Aðgerðir Íslendinga gegn Rússum. Ráðherrann rakti hvað gerst hefði í samskiptum Rússa og Íslendinga og rökstuddi nauðsyn þess að Íslendingar stæðu gegn stefnu og athöfnum Rússa sem brytu gegn alþjóðalögum eins og innlimun Krímskaga fyrir fjórum árum, í mars 2014. Alþjóðalög væru besta skjól smáríkja og stæðu þau ekki vörð um þau gættu þau ekki eigin hagsmuna. Þá ættu Íslendingar samleið með lýðræðisríkjunum í andstöðu þeirra við ofríkisstefnur og í því efni væri hlutverk og forysta sjálfstæðismanna jafn mikilvæg núna og áður.

Ragnhildur Kolka birti þessa mynd  á Facebook-síðu sinni af fundinum  í Vallhöll 9. apríl. Gísli Freyr Valdórsson fundarstjóri situr við hlið Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.

Efni ræðu minnar ætti ekki að koma þeim á óvart sem lesa þessa síðu. Að loknum framsöguræðum var orðið gefið frjálst og urðu líflegar umræður enda voru ekki allir á sama máli og við Guðlaugur Þór. Ein spurning sneri að því hvort Rússar beittu öðrum aðferðum til að hafa áhrif á úrslit kosninga í lýðræðisríkjunum en almennt mætti ætla af erlendu ríki. Í svari mínu við spurningunni las ég eftirfarandi texta sem ég hafði við höndina:

„Anne Applebaum er dálkahöfundur í The Washington Post og höfundur margra bóka. Hún sagði meðal annars í dálki sínum föstudaginn 6. apríl:

„Við megum að hluta þakka það rannsókninni undir stjórn Roberts S. Muellers III, sérstaks saksóknara, að við vitum nákvæmlega hvaða aðferðum Rússar beita á netinu. Þeir nota gervi-vefsíður, gervi-Facebook-síður og gervi-fylgjendur á samfélagsmiðlum til að auka á trúverðugleika öfgasjónarmiða, hvort sem þau koma langt frá hægri eða vinstri. Þeir búa til eða afflytja fréttir – slíta úr samhengi, breyta efninu, búa til fals-myndskeið – í því skyni að ýta undir ótta og auka á félagslega sundrung. Í Þýsklandi varð frægt þegar nettröll, bottar og virkir rússneskir stjórnmálamenn tóku höndum saman við að breiða út tilbúnu söguna um Lísu, rússnesk-þýska stúlku sem átti að hafa verið nauðgað af arabískum innflytjendum. Í frönsku forsetakosningabaráttunni fluttu rússneskir ríkisfjölmiðlar með stuðningi Rússavina á samfélagsmiðlum þann boðskap að Emmanuel Macron nyti stuðnings „talsmanna homma“ í Bandaríkjunum.“

Allir hljóta að sjá að það sem sagt er hér og liggur fyrir sannað er langt utan þess sem telja verður eðlilegt í samskiptum ríkja.