12.1.2021 10:14

Alþingishúsið 2009 – Capitol 2021

Umræðuvandann þekkjum við einnig eins og birtist nú í kröfunni um að nefna ekki búsáhaldabyltinguna í sömu andrá og Trump-byltinguna.

Einkennileg deila hefur orðið um hvort nefna megi búsáhaldabyltinguna svonefndu hér á landi 2008/09 í sömu andrá og þinghúsárásina í Washington 06/01/21. Í báðum tilvikum var ráðist á þinghús. Í báðum tilvikum var efnt til æsingafunda í aðdraganda árásanna. Hér var því haldið fram að árásin 2008/09 væri gerð vegna uppsafnaðrar reiði almennings í garð auðmanna og ráðandi afla. Í skýringum á því sem gerðist í Washington er sagt að árásina megi rekja til uppsafnaðrar reiði um helmings Bandaríkjamanna í garð ráðandi afla. Árásin sé afleiðing þess sem stjórnmálafræðingar kalla „skautun“ í bandarísku samfélagi. Notuðu þeir ekki þetta orð líka um ástandið hér átakaveturinn 2008/09?

_116399959_gettyimages-1230464924Við bandaríska þinghúsið - Capitiol - 6. janúar 2021.

Það er hlutur Donalds Trumps í atburðunum í Washington sem veldur því að vinstrisinnar hér mega ekki heyra á það minnst að líkindi séu með árásunum á Alþingishúsið og Capitol, bandaríska þinghúsið.

Viðhorfinu til skoðana Trumps lýsir Björk Eiðsdóttir á þennan veg í leiðara Fréttablaðsins í dag (12. janúar):

„En hvers vegna ætti einkafyrirtæki á við Twitter og síðar Facebook, Google og YouTube, sem öll hafa að einhverju leyti lokað á forsetann, að standa vörð um téð tjáningarfrelsi þegar það augljóslega brýtur í bága við reglur sem það setur notendum sínum?“

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins sýnir meira umburðarlyndi gagnvart ritskoðuninni á Trump en til dæmis Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Steffen Seibert, talsmaður Merkel, nefndi bannið á Trump í færslu á Twitter og sagði að kanslarinn teldi „vafasamt að loka reikningum Bandaríkjaforseta varanlega“.

Seibert sagði að Merkel vildi að kjörnir þingmenn tækju frekar ákvarðanir um reglur fyrir samfélagsmiðla en tæknifyrirtækin sjálf. Hann sagði skoðanafrelsi „mikilvægan grundvallarrétt“, vissulega mætti skipta sér af því en „í samræmi við lög og innan ramma sem löggjafarvaldið skilgreindi – ekki í samræmi við ákvarðanir stjórnenda samfélagsmiðla“. Seibert sagði jafnframt að tæknifyrirtækin bæru „mikla ábyrgð á að kynning á stjórnmálaviðhorfum eitrist ekki af hatri, lygum og hvatningu til ofbeldis“.

Þessi ofstjórn á samfélagsmiðlum er meðal þess sem veldur „skautuninni“ í bandarísku samfélagi. Demókratar sem nú fara með öll völd í Washington, nema í hæstarétti, stjórna einnig helstu fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, móta andrúmsloft háskólasamfélagsins og gera kröfu til að ráða menningarstraumum. Líti menn atburðina í Washington aðeins með efnahag og atvinnu í huga er sjónarhornið of þröngt. Vandinn snertir ekki síður umræðuna sjálfa. Umræðuvandann þekkjum við einnig eins og birtist nú í kröfunni um að nefna ekki búsáhaldabyltinguna í sömu andrá og Trump-byltinguna.

Strax frá fyrsta degi forsetatíðar sinnar háði Trump stríð við fjölmiðlamenn. Hann dró þá hiklaust í dilka og gróf undan trú á þeim. Ritstjórnarvald fékk hann í gegnum Twitter. Nú þegar Trump er rúinn trúverðugleika, trausti og völdum er troðið á málfrelsi hans. Ritstjórnar- og eigendavaldi beitt af miskunnarleysi. „Skautunin“ magnast en minnkar ekki.