Alþingi samþykkir fjárlög 2020
Að lokaatkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarpið fari fram um miðjan dag og ljúki fyrir kvöldmatarhlé er einnig til marks um breytt og bætt vinnubrögð á alþingi.
Fjárlög ársins 2020 voru samþykkt á alþingi síðdegis miðvikudaginn 27. nóvember. Breytingin sem orðið hefur á þingstörfum eftir að ákvæðum laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, var hrundið í framkvæmd er mikil.
Árið 2015 voru samþykkt lagaákvæði um stefnumörkun í opinberum fjármálum til fimm ára. Ber fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram tvær þingsályktunartillögur á því sviði.
Önnur þingsályktunin nefnist fjármálastefna og skal hún lögð fram svo fljótt sem auðið er eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð. Hin þingsályktunin varðandi stefnumörkun um opinber fjármál nefnist fjármálaáætlun og skal hún lögð fram á alþingi endurskoðuð eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Þessi árlega voráætlun tekur einnig til fimm ára og skal hún reist á grundvelli fjármálastefnunnar.
Á þessum grunni eru fjárlög hvers árs samin og afgreidd. Það hefur síðan verið úr sögunni að þingmenn séu að rífast um fjárlagafrumvarpið fram á síðasta dag fyrir jólaleyfi.
Að lokaatkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarpið fari fram um miðjan dag og ljúki fyrir kvöldmatarhlé er einnig til marks um breytt og bætt vinnubrögð á alþingi.
Í aðdraganda afgreiðslunnar nú reyndi stjórnarandstaðan að draga að sér athygli. Það var ekki vegna neinnar meginstefnu í ríkisfjármálum og ágreinings um hana heldur varð sjónvarpsþátturinn Kveikur eins og konar bjarghringur stjórnarandstæðinga. Þeir settu á svið deilur um hvort innlendir rannsóknaraðilar fengju nægilegt fé til að rannsaka Namibíu-Samherjamálið.
Ágúst Ólafur Ágústsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, tók rispu á alþingi mánudaginn 25. nóvember í von um að geta komið höggi á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, með algjörlega órökstuddum ásökunum sem birtust í spurningu eins og þessari: „Finnst fólki fullkomlega eðlilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins ákveði bara einn hvað, hvort og hverjir fái fjármuni til að rannsaka Samherjamálið?“
Bjarni Benediktsson á alþingi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmaðurinn verður sér til skammar með ómálefnalegri framgöngu í þingsalnum. Höfuðlaus her stjórnarandstæðinga elti síðan mesta öfgamanninn í ræðustól þingsins og bergmálaði boðskap hans. Bjarni Benediktsson sagði réttilega:
„Ætlar hv. þingmaður að koma með einhvern lista yfir þá sem hann leggur til að embættið fái fjármagn til þess að rannsaka sérstaklega? Hverjir eru þá á þeim lista? Það liggur nákvæmlega ekkert fyrir annað en að embættin [héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri] munu fá fjárheimildir til að sinna verkefnum sínum eins og eftir er kallað. En hv. þingmanni finnst eðlilegt að tiltaka ákveðna rannsókn og að Alþingi segi: Gjörið svo vel, takið við þessu og farið nú og rannsakið þennan aðila þarna. Ég er þeirrar skoðunar að embættin eigi að vera sjálfstæð og taka sjálfstæðar ákvarðanir um upphaf og endi rannsókna, um ákærumeðferð o.s.frv. Hv. þingmenn eru nefnilega komnir út á mjög hálan ís í þingsal þegar þeir kalla eftir því að einstaka aðilar séu teknir til rannsóknar eins og annar hv. þingmaður gerði fyrr í dag, kallaði eftir húsleitum og haldlagningu gagna.“