27.2.2023 10:04

Alþingi og ríkisborgararétturinn

Nú telja evrópskir lögspekingar að nútímamenn sem þannig tala vilji vald sem skoða megi í ljósi stjórnmála 19. aldar. Píratar vilja sem sagt hverfa aftur til stjórnarhátta sem giltu á 19. öld.

Þingmenn Pírata og Samfylkingar kvörtuðu fyrir ári undan að hafa ekki nægilegt svigrúm til að láta eigin geðþótta ráða við afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt. Megi rekja þögn þeirra núna til þess að látið hafi verið undan kröfum þeirra er það dæmi um sérstöðu í útlendingamálum.

Á dönsku vefsíðunni altinget.dk er í dag (27. febrúar) sagt frá því að evrópskir prófessorar telji vald danskra stjórnmálanna í ríkisborgaramálum leifar frá 19. öld. Á danska þinginu gildir einmitt sú regla eins og hér að þingmenn ákveða án nokkurs rökstuðnings ríkisborgararétt þeirra sem sækja um hann til þingsins. Heimildir og svigrúm danskra þingmanna er meira er hér megi marka fréttina. Gagnrýnendur reglnanna sem hér gilda virðast vilja laga þær að danskri fyrirmynd.

Í fréttinni segir að hvergi annars staðar innan ESB fari stjórnmálamenn þessum höndum um umsóknir um ríkisborgararétt en þær geta verið á milli 200 og 500 á ári í danska þinginu.

964008

Vitnað er í þrjá prófessora í jafnmörgum ESB-löndum sem segja að valdheimildir af þessu tagi ýti undir að niðurstöður ráðist af tilviljunum (geðþótta) og fjölgi mannréttindabrotum.

„Í mínum augum eru þetta leifar frá 19. öld sem ættu ekki að sjást í réttarríki samtímans,“ segir Patrick Wautelet, lagaprófessor við Liége-háskóla í Belgíu.

Bent er á að fyrir löngu hafi Rúmenar horfið frá þessari reglu og sama hafi verið gert í Hollandi og Belgíu, segir René de Groot, fyrrverandi prófessor í samanburðarlögfræði við Maastricht-háskóla. Honum finnst „mjög athyglisvert“ að þessi rúma regla gildi í Danmörku.

Prófessor Maarten Vink við Evrópsku háskólastofnunina í Flórens á Ítalíu segir að geðþóttaaðferðin sem danskir stjórnmálamenn noti sé úrelt í Evrópu.

Þegar þessi gagnrýni er borin undir danskan þingmann bendir hann á að danska reglan sé bundin í stjórnarskrá og það sé ekki unnt að breyta henni með því að smella fingri.

Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar og svo hefur verið frá gildistöku stjórnarskrár konungsríkisins Íslands, nr. 9/1920, sbr. 64. gr. hennar.  Í ríkisborgaralögum segir að alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum en þingið skuli bíða eftir að útlendingastofnun fái umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda auk þess skuli útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina. Þessi ákvæði um umsagnir trufla Pírata enda eru þau sett til að geðþótti þingmanna ráði ekki alfarið.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði fyrir rúmu ári að vegna þess að aldrei fleira fólk hefði verið á flótta hefðu aldrei fleiri þurft að sækja beint til alþingis um ríkisborgararétt „fram hjá þeim þröngu skilyrðum sem lög um útlendinga heimila“. Í svipaðan streng var tekið af hálfu Samfylkingar og Viðreisnar.

Nú telja evrópskir lögspekingar að nútímamenn sem þannig tala vilji vald sem skoða megi í ljósi stjórnmála 19. aldar. Píratar vilja sem sagt hverfa aftur til stjórnarhátta sem giltu á 19. öld og enn er að finna í dönsku stjórnarskránni. Nútímastjórnmálamaðurinn bregður sér í allra kvikinda líki.