3.5.2021 10:32

Allt fram streymir

Enginn veit enn hvaða varanlegar breytingar verða á högum okkar eftir COVID-19-reynsluna.

Bókanir streyma til þeirra sem selja ferðir til Íslands í Bandaríkjunum. Fyrsta áætlunarvél Delta-flugfélagsins að lokinni COVID-lokun kom frá New York í gær (2. maí) og af fréttum má ráða að á skemmri tíma en áður var spáð breytist staðan fyrir innlend ferðaþjónustufyrirtæki.

Til þessa hefði ekki komið nema Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði með stuðningi ríkisstjórnarinnar ákveðið að opna landið fyrir ferðamönnum frá löndum utan Schengen-svæðisins, það er Bandaríkjamönnum og Bretum, með þeim almennu skilyrðum sem gilda um sóttvarnir.

Nú heyrast ekki raddir um hættuna af litakóðunarkerfinu sem voru háværar fyrir nokkrum vikum og einkenndust af hræðsluáróðri gegn því sem gerðist 1. maí. Þá vissu þó allir sem vildu vita að samhliða ákvörðunum um að opna landamærin yrði gætt sóttvarna í samræmi við kröfur þeirra sem þær ákveða.

Verður spennandi að fylgjast með framvindunni næstu daga og vikur.

B2ap3_thumbnail_history_of_streaming_400Í Morgunblaðinu í dag (3. maí) segir að undanfarna mánuði hafi fyrirtækið Sena Live selt 42 þúsund miða á fimm tónleika. Það jafnist á „við um það bil 30 stappfullar Eldborgar-hallir“. Tónleikarnir skili 130 milljónum króna í kassann hjá Senu Live. Það seldust til dæmis um 9.500 miðar á 70 ára afmælistónleika Björgvins Halldórssonar í Borgarleikhúsinu á dögunum. „Ætla má að margfalt fleiri hafi horft á tónleikana þar sem aðeins þurfti að kaupa einn miða fyrir hvert heimili,“ segir í frétt blaðsins.

Reynslan af farsóttinni varð til þess að Ísleifur Þórhallsson og samstarfsfólk hans hjá Senu Live gripu til nýrra aðferða við að miðla tónleikum til áheyrenda og áhorfenda. Nú þegar aflétting á banni við fjölmennum samkomum er til umræðu telur Ísleifur að ekki verði frá horfið frá því að bjóða streymistónleika. Hann segir:

„Það er aldrei uppselt í streymið og þetta verður ný vídd héðan í frá. Ef við fáum einhverju ráðið þá verður boðið upp á streymi auk venjulegrar miðasölu. Það kann að vera flókið varðandi réttindamál þegar kemur að tónleikum erlendra stórstjarna en við munum að líkindum aldrei halda tónleika á borð við Jólagesti og Dívur aftur án þess að bjóða þá líka í streymi.“

Enginn veit enn hvaða varanlegar breytingar verða á högum okkar eftir COVID-19-reynsluna. Ef til vill verður hún mest þegar kemur að nýtingu tækninnar sem hér er lýst. Hún gerir ekki aðeins kleift að ná til þúsunda með milliliðalaust streymi þar sem fyrirframgreiðsla opnar leið fyrir einstaklinga og heimili inn á stórviðburði. Þetta má að sjálfsögðu nota um fleira en tónleika.

Tæknin breytir einnig öllum verslunarháttum. Mun auðveldara er en áður að kynna sér vörur á netinu, hvort heldur daglegar neysluvörur eða annan varning, og panta beint og milliliðalaust. Dreifingarfyrirtæki eflast við hliðina á gamla póstinum sem minnir orðið á ríkisútvarp sem strandar af eigin þunga á meðan fisléttar lausnir ná flugi. Á dögunum var sending til mín sett í póst í Reykjavík á þriðjudegi og á föstudegi fékk ég tilkynningu um að ég gæti sótt hana í pósthús, einnig í Reykjavík. Hve lengi líða skattgreiðendur þetta?