5.4.2022 8:46

Algjör einangrun Pútins

Sagan geymir því miður mörg dæmi um að atburðarás verði á þann veg að ekki sé aftur snúið á friðarbraut með samningum við þann sem ákveður að rjúfa friðinn og krefst þess að vald sitt og hernaðarmáttur ráði.

Næsta óraunverulegt er að lesa ummæli í íslenskum fjöl- eða samfélagsmiðlum þar sem annaðhvort er beinlínis fullyrt að Pútin og morðsveitir hans séu bornar röngum sökum með fréttafölsunum af fjöldamorðum eða enn er látið að því liggja að augljós ásetningur Pútins um að Úkraína verði hérað í Rússlandi ráði ekki fyrirmælum hans um innrás í landið.

Fyrir utan óraunveruleikann sem felst í því að fegra ásýnd Pútins eða finna afsakanlega skýringu á framgöngu hans og herja hans er óskiljanlegt að enn sé því haldið fram í alvöru að ekkert sé sjálfsagðra en að stofnað til friðarviðræðna við Pútin þar sem rætt sé við hann eins og hvern annan þjóðarleiðtoga sem virði gerða samninga og alþjóðalög.

61343593_1006Sagan geymir því miður mörg dæmi um að atburðarás verði á þann veg að ekki sé aftur snúið á friðarbraut með samningum við þann sem ákveður að rjúfa friðinn og krefst þess að vald sitt og hernaðarmáttur ráði. Fjöldamorðafréttirnar frá Bucha lýsa atburðum sem hljóta að valda þáttaskilum í samskiptum við Vladimir Pútin. Þeir sem ekki viðurkenna það láta annarlega hagsmuni ráða afstöðu sinni.

Í frásögn á vefsíðunni The Telegraph má lesa frásagnir fólks sem lifði af blóðbaðið í Bucha. Þar segir meðal annars:

„Í eitt skipti gáfu rússneskir hermenn fólkinu kjallaranum af þurrmat sínum og síðan köstuðu þeir handsprengju inn í kjallarann. Þetta gerðist. Ég hef ekki upplýsingar um fjölga látinna í þessu atviki. Í einni af „tiltektar-aðgerðum“ þeirra óttuðust þeir að þurfa að fara inn í dimman kjallara fjölbýlishúss svo að til vonar og vara köstuðu þeir handsprengju á undan sér. Einskær tilviljun réð því að enginn dó.“

Að koma þannig fram við almenna borgara er brot á öllum mannúðarsasamþykktum um framgöngu í stríði. Að þess sé krafist að Rússar séu gerðir brottrækir úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er ekki skrýtið frekar en brottrekstur þeirra úr Evrópuráðinu.

Þegar aðild Rússa að Evrópuráðinu var samþykkt á tíunda áratugnum voru skoðanir um réttmæti þess skiptar innan ráðsins og utan. Það sjónarmið réð að lokum að með aðild ykjust líkur á því að lýðræðislegir stjórnarhættir festust þar í sessi og virðing fyrir gildum mannréttinda og réttarríkisins. Þetta reyndist haldlaus von þótt enginn sæi fyrir hvernig stjórnarhættir hafa þróast undir Pútin.

Það er argasta blekking í ætt við upphrópanirnar núna um að Rússar hafi ekki gerst fjöldamorðingjar í Bucha að halda því fram að aðrir en Pútin beri ábyrgð á hernaði hans í Úkraínu. Að reyna að klína sökinni á NATO og vestrænar þjóðir er aumkunarvert. Sé það gert í von um að spinna einhvern viðræðuþráð við Pútin er sú von úti núna.