Álfabakkahúsið er minnisvarði
Ákvarðanir í þessu máli hafa að sjálfsögðu verið teknar af æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar undir forystu borgarstjóra.
Enginn fulltrúi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur treysti sér til að verða við boði um þátttöku í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi fimmtudagsins 9. janúar þar sem rætt var um skipulagshneykslið við Álfabakka. Þar er risið vöruhús sem greinilega var laumað í gegnum stjórnkerfi borgarinnar á grunni upplýsinga um að hún yrði ekki þeim ófögnuði fyrir nágranna og kom í ljós eftir að húsið var risið.
Í anda þeirra aðferða sem oft hafa dugað Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra, við að drepa gagnrýnum umræðum á dreif, greip píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður skipulags- og umhverfisráðs, til þess lúalega ráðs að klína ábyrgð vegna hneykslisins á þann sem reisti nágrannahús vöruhússins, Búseta. Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, mótmælir þessum áburði harðlega. Búseti hyggst neita lagalegum úrræðum til að rétta hlut þeirra sem hljóta skaða vegna ákvarðana borgaryfirvalda.
Vöruhúsið við Álfabakka og Búsetahúsið (ljósmynd/Reykjavíkurborg).
Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, fór rækilega yfir gang málsins í Kastljósinu. Hér skulu nefnd þrjú atriði sem koma í hugann eftir umræðurnar:
(1) Nágrannar bentu í skipulagsferlinu á að í óefni stefndi en skipulagsfulltrúi borgarinnar gerði lítið úr þeim athugasemdum og hafði þær að engu. Kjörnir fulltrúar fóru að hans röngu ráðum.
(2) Afgreiðsla málsins var með sama hætti og braggamálsins á sínum tíma. Það var tekið úr almennu ferli mála í borgarkerfinu og flutt beint inn í deild sem heitir athafnaborgin Reykjavík og sinnir gæluverkefnum borgarstjóra (heiti deildarinnar var breytt eftir braggamálið).
(3) Það fékkst milljarður króna í borgarsjóð fyrir byggingarrétt hússins á lóðinni.
Ákvarðanir í þessu máli hafa að sjálfsögðu verið teknar af æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar undir forystu borgarstjóra. Fyrir Reykjavíkurborg munar um minna en milljarð í borgarsjóð og hlýtur sjálfur borgarstjórinn að koma að slíkri fjáröflun. Um allt þetta var hins vegar sveipað leyndarhulu í stjórnartíð Dags B. Eggertssonar. Má þar meðal annars nefna vinnubrögðin við sölu lóða aflagðra bensínstöðva.
Til að hafa svonefnd „byggingaréttargjöld“ sem hæst og þvinga húsbyggjendur í Reykjavík til að greiða þau er framboð á lóðum skert undir formerkjum þéttingarstefnu. Þetta leiðir til þess, samkvæmt nýlegum fréttum, að gjöldin geta numið allt að 20 milljónum á íbúð í fjölbýlishúsi. Gjaldið hækkar íbúðarverð og ýtir undir verðbólgu. Auk byggingaréttargjalds er mönnum svo gert að greiða allan útlagðan kostnað vegna viðkomandi lóðar í formi gatnagerðargjalds.
Mikilvægur liður í framkvæmd þessarar stefnu borgarinnar er að einangra þá sem vinna að útfærslu hennar. Umboðsmaður alþingis sagði 4. desember 2024 frá dæmalausum dónaskap umhverfis- og skipulagssviðs í garð borgarbúa sem beðið hafði árangurslaust í rúm tvö ár, frá 22. ágúst 2022, eftir svari sviðsins við upplýsingabeiðni vegna girðingar á lóðarmörkum. Við öflun upplýsinga var starfsmanni umboðsmanns gert ókleift að ná símasambandi við starfsmann þessa sviðs borgarinnar. Álfabakkahúsið stendur sem minnisvarði um óvirðingu meirihluta borgarinnar við allt og alla.