13.3.2021 10:51

Ákvörðun Kristjáns Þórs

Það eru stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynni að hann gefi ekki kost á sér í prófkjöri.

Það eru stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynni að hann gefi ekki kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í norðausturkjördæmi og dragi sig þar með í hlé frá virkri forystu í stjórnmálum eftir 35 ár, frá 29 ára aldri, í sveitarstjórnum, á alþingi og í ríkisstjórn.

1171073Kristján Þór Júlíusson á leið á ríkisstjórnarfund (mynd: mbl.is).

Fyrir nokkrum mánuðum fól Kristján Þór mér setu í verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu ásamt Hlédísi Sveinsdóttur, þess vegna staldraði ég sérstaklega við þessi orð á Facebook-síðu Kristjáns Þórs í dag (13. mars) þar sem hann tilkynnir ákvörðun sína samhliða viðtali við Morgunblaðið:

„Á þessum tíma [í tíð Kristjáns Þórs sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] hefur okkur tekist að stíga fjölmörg framfaraskref, m.a. við einföldun regluverks þar sem felldar hafa verið úr gildi ríflega 1.200 reglugerðir og tvö lagafrumvörp samþykkt, þar sem m.a. fimm stjórnsýslunefndir voru lagðar niður. Einnig vil ég nefna stofnun Matvælasjóðs, styrkingu á lagaumgjörð fiskeldis með tilheyrandi uppbyggingu á vísindalegum grunni og breytingar á álagningu veiðigjalds þannig að þau taka nú tillit til afkomu fyrirtækjanna. Lokið var við endurskoðun allra búvörusamninganna, m.a. um að viðhalda framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu, stórsókn íslenskrar garðyrkju og gerð búvörumerkis. Með samningunum voru gerðar umfangsmiklar breytingar á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra. Ég fullyrði að bæði landbúnaður og sjávarútvegur standa sterkar að vígi í lok þessa kjörtímabils en í upphafi þess.

Fyrir sveitastrák að norðan, sem alinn er upp á sjónum, eru það sérstök forréttindi að hafa fengið að gegna embætti ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar. En verkefninu er hvergi nærri lokið; á næstu vikum og mánuðum gefst tækifæri til að ljúka fjölmörgum málum sem ég hef lagt áherslu á á þessu kjörtímabili. Meðal annars átak til að ýta undir möguleika bænda til heimaframleiðslu beint frá býli, mælaborð fiskeldis, mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland ásamt frekari styrkingu starfsstöðvar stofnana ráðuneytisins á landsbyggðinni.“

Á mörgum fundum undanfarnar vikur og við lestur skýrslna og álitsgerða hef ég kynnst meiri grósku í málefnum íslensks landbúnaðar en mig grunaði að væri fyrir hendi. Þar hefur ekki ríkt neinn doði í ráðherratíð Kristjáns Þórs.

Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu þar sem spilling í íslensku þjóðlífi var einkum rakin til ójafnvægis í atkvæðaþunga eftir búsetu, landbúnaðar og sjávarútvegs. Fullyrðingar af þessu tagi sýna hve fráleitur málflutningur þeirra getur orðið sem biðla til kjósenda á höfuðborgarsvæðinu. Rangfærslur af þessu tagi eru síðan færðar yfir á flokka, ráðherra og þingmenn.

Kristján Þór Júlíusson hefur allan stjórnmálaferil sinn unnið að málefnum þeirra sem á landsbyggðinni búa til sjávar og sveita. Hann hefur gert það af trúmennsku og áhuga. Hann hefur markað varanleg spor sem bæjarstjóri og ráðherra.