Áhugaleysi á stjórnarskrárbreytingum
Stofnaður sérstakur flokkur 16. febrúar 2013 til að berjast fyrir stjórnarskrármálinu, Lýðræðisvaktin, sem fékk 2,5% atkvæða í þingkosningum 27. apríl 2013.
Eitt af höfuðmálum Jóhönnu Sigurðardóttur eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 sneri að stjórnarskránni. Þeirri kenningu var hampað að hrun fjármálakerfisins mætti meðal annars rekja til stjórnarskrárinnar.
Þetta átti ekki við nein rök að styðjast en störf alþingis fram að kosningum í apríl 2009 snerust að verulegu leyti um að hindra framgang tillögu Jóhönnu sem vildi svipta alþingismenn réttinum til að breyta stjórnarskránni. Þeir sem vilja kynnast deilunum sem urðu vegna þessa geta til dæmis lesið lýsingar mínar á þeim hér á þessari vefsíðu.
Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins stofnuðum til málþófs og höfnuðum hvers kyns samkomulagi.
Þótt Jóhanna héldi áfram að berjast fyrir breytingu á stjórnarskránni að kosningum loknum runnu allar tilraunir hennar út í sandinn og nú (26. september) rúmum 10 árum eftir að skipulagðar árásir á stjórnarskrána hófust kynnir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands niðurstöður skoðanakönnunar þar sem aðeins 8% þátttakenda eru „mjög óánægð“ með gildandi stjórnarskrá. Sögðust 19% svarenda frekar óánægð með stjórnarskrána. Samtals eru því 27% svarenda óánægð eða frekar óánægð með stjórnarskrána. Þá voru 37% svarenda ánægð eða mjög ánægð með hana en 36% segjast hvorki ánægð né óánægð.
Svarendur vildu helst að ákvæði um dómstóla, mannréttindi og kjördæmaskipan og atkvæðajafnvægi væru endurskoðuð eða um þau fjallað. Hvað varðar ný efnisatriði í stjórnarskránni vildu flestir fá þar inn ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál. Þá voru 62% svarenda sem tóku þátt í könnuninni frekar hlynnt eða mjög hlynnt takmörkunum á því hversu lengi forseti Íslands geti setið í embætti.
Í umræðum um stjórnlögin vakna helst spurningar um hvort aðild að EES-samstarfinu standist stjórnarskrána – engin ákvæði um þátttöku í alþjóðasamstarfi á borð við EES er þó þar að finna. Svar við spurningum um þetta efni er að finna í 18 formlegum lögfræðiálitum sem hafa verið gefin frá árinu 1992, ávallt með þeirri lokaniðurstöðu að EES-samstarfið rúmist innan stjórnarskrárinnar.
Í könnun félagsvísindastofnunar sem kynnt var 26. september segja 35% að halda beri áfram alþjóðasamstarfi án breytinga á stjórnarskránni en 65% telja að setja þurfi í stjórnarskrána ramma um þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Ágreiningur um slíkt ákvæði snýst að verulegu leyti um hvort þar með yrði opnuð leið til aðildar að ESB. Auðvitað er unnt að sníða fram hjá þeirri hættu. Hitt er einnig áleitin spurning hvort ekki hafi orðið til óskráð stjórnskipunarregla um aðildina að EES.
Frá því að baráttan fyrir nýrri stjórnarskrá hófst snemma árs 2009 hafa margir láta að sér kveða í henni meðal annars var stofnaður sérstakur flokkur 16. febrúar 2013 til að berjast fyrir málinu, Lýðræðisvaktin, sem fékk 2,5% atkvæða í þingkosningum 27. apríl 2013.
Nú berst Stjórnarskrárfélagið fyrir nýrri stjórnarskrá undir formennsku Katrínar Oddsdóttur lögfræðings. Í Morgunblaðinu 27. september segir hún könnun félagsvísindastofnunar „hálfgerða markleysu“. Yfirvöld og aðstandendur könnunarinnar hafi ekki spurt „um afstöðu til nýju stjórnarskrárinnar“ og þess vegna finnst Katrínu Oddsdóttur „þetta í raun og veru ekki segja neitt um málið“.