Áhrif falls Berlínarmúrsins á Íslandi
Íslenskt samfélag opnaðist eftir fall múrsins eins og samfélögin í austurhluta Evrópu.
Þess er minnst í dag, 9. nóvember 2019, að 30 ár eru liðin frá því að Berlínarmúrinn var rofinn. Þetta var heimssögulegur atburður sem gjörbreytti ásýnd Evrópu á örskömmum tíma.
Án þessa atburðar væru samskipti Íslendinga við aðrar Evrópuþjóðir ekki með sama hætti og þau eru nú. Fyrir fall múrsins hafði EFTA-ríkjunum verið boðið til viðræðna við Evrópubandalagið (EB) eins og Evrópusambandið (ESB) hét þá um aðild að sameiginlegum markaði EB-ríkjanna.
Berlínarmúrinn rofinn í nóvember 1989.
EFTA-ríkin þáðu boðið og rituðu undir EES-samninginn í Óportó (Portó) í Portúgal í maí 1992. Vegna hruns Sovétríkjanna í kjölfar þess að múrinn var úr sögunni sóttu hlutlausu ríkin: Austurríki, Finnland og Svíþjóð auk NATO-ríkisins Noregs um aðild að EB. Hlutlausu þjóðirnar samþykktu aðildina en Norðmenn höfnuðu henni. Áður hafði svissneska EFTA-þjóðin hafnað bæði aðild að EB og evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Niðurstaðan varð sú að 1. janúar 1994 stofnuðu ESB, Ísland og Noregur EES formlega og Liechteinstein gerðist aðili árið 1995 eftir að greitt hafði verið úr nánu sambandi Liechtenstein og Sviss á þann hátt að fullveldið væri óskorað hjá Liechtensteinum – þeir líta á EES-aðildina sem sögulega fullveldisviðurkenningu.
Eftir að ESB og þar með EES-svæðið stækkaði austur á bóginn árið 2004 urðu enn þáttaskil sem eru greinileg hér á landi þegar litið er til erlendu starfsmannanna í margvíslegum greinum en einkum byggingariðnaði og ferðaþjónustu sem streymt hafa til landsins í krafti reglnanna um frjálsa för á EES-svæðinu. Hagur okkar og þjóðarbúskapur væri annar hefði allt þetta dugmikla fólk ekki tekið hér til hendi.
Um áhrif alls þessa má lesa í skýrslunni um EES-samstarfið sem kom út 1. október 2019. Þar sést að þjóðfélagsbreytingarnar hafa ekki síður orðið miklar hér á landi undanfarin 30 ár en hvarvetna annars staðar í Evrópu. Íslenskt samfélag opnaðist eftir fall múrsins eins og samfélögin í austurhluta Evrópu.
Aðildin að EFTA árið 1970 gaf íslenskum stjórnvöldum færi á að stíga inn í Evrópu nútímans með aðildinni að EES 1. janúar 1994. Ný viðmið komu til sögunnar og frá þeim verður ekki horfið þótt skiptar skoðanir séu á þeim eins og öllu öðru.