27.3.2019 11:28

Agi við Thames, agaleysi við Austurvöll

Ríkti sama andrúmsloft á breska þinginu og í sölum alþingis þegar að gangi mála kemur væri allt annað yfirbragð í þingsalnum í Westminster en við blasir.

Eitt er að breska þingið komi sér ekki saman um neina afstöðu vegna Brexit og hafi hafnað tillögu forsætisráðherrans tvisvar sinnum annað að sjá hvernig staðið er að málum við stjórn þingsins til að unnt sé að ganga þar til atkvæða. Aginn sem ríkir þegar kemur að tímasetningum er mikill. Í dag (27. mars) var til dæmis boðað að í fimm klukkustundir yrðu umræður um tillögur en klukkan 19.00 yrði gengið til atkvæða í leit að B-Brexit-áætlun.

Westminster-1024x576Westminster-höll við Thames í London.

Tímasetningum hefur verið háttað á þennan veg við lykilatkvæðagreiðslunnar vegna Brexit og ekki annað séð en við þær hafi verið staðið. Þingmenn í neðri deild breska þingsins eru 650. Að halda skipulagslega utan um þennan hóp krefst mikils aga og gagnkvæmrar virðingar fyrir ákvörðunum sem teknar eru.

Ríkti sama andrúmsloft á breska þinginu og í sölum alþingis þegar að gangi mála kemur væri allt annað yfirbragð í þingsalnum í Westminster en við blasir. Þar er lögð áhersla á að sjónarmið flokka fái notið sín en virðingin fyrir ákvörðunum forseta þingsins er skýr þótt stundum sé hann beðinn um rökstuðning eða að útlista hvort hann hafi farið að ráðum embættismanna þingsins við töku umdeildra ákvarðana.

Breskir þingmenn bera einnig virðingu fyrir eigin tíma og annarra. Hér er algengt að sjá að þingmenn segi eftir fyrstu kynni sín af störfum alþingis að þeim þyki tímanum illa varið.

Nýlegt dæmi frá alþingi: Fimmtudaginn 21. mars gerði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, athugasemd við að þingforseti hefði sent sér tölvubréf að morgni sama dags um að lengja þingfund þann daginn „í ljósi þess að einhverjir þingflokkar hafa óskað eftir lengra hádegishléi til að halda þingflokksfundi“. Þarna var um þingflokka stjórnarflokkanna að ræða. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, gerði jafnframt athugasemd í sömu veru. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti játaði sig sekan um að hafa tilkynnt þessar breytingar seint, allt kvöldið áður hefði hann verið á fundi og ekki skoðað tölvubréf til sín fyrr en „leið svolítið á morguninn“ eins og hann orðaði það frá forsetastóli. Jón Þór Ólafsson, varaforseti alþingis fyrir Pírata, sagði: „Í ofanálag hafa þingmenn Pírata sagt og þingflokkur Pírata sent forseta bein fyrirmæli um að ekkert ætlað samþykki sé frá þingflokki Pírata.“ Þingforseti lagði tillögu um að lengja fund þennan dag undir atkvæði og var hún samþykkt með 39 samhljóða atkvæðum.

Skilyrðið Pírata sem Jón Þór Ólafsson nefndi ber fyrst og síðast sem vantraust á hann og umboð til að kynna sjónarmið í nafni þingflokks Pírata auk þess skilyrðið endurspeglar tortryggnina innan raða Pírata.