31.1.2022 9:34

Afsökun forseta Íslands

Nú hefur húsráðandinn Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, axlað ábyrgð og beðist afsökunar.

Hér var föstudaginn 28. janúar sagt frá umræðum sem urðu um sóttvarnir eða réttara sagt skort á þeim á Bessastöðum við afhendingu íslensku bókmenntaverðlaunanna að kvöldi þriðjudags 25. janúar.

Hjá Félagi ísl. bókaútgefanda veltu menn fyrir sér hvort athöfnin kynni að brjóta í bága við sóttvarnareglur. Ríkisútvarpið (RÚV) taldi að undanþága væri frá almennum sóttvarnareglum vegna afhendingarinnar, sagði í frétt Morgunblaðsins 26. janúar.

Sif Gunnarsdóttir forsetaritari sagði við blaðið að RÚV „væri með undanþágu frá almennum sóttvarnareglum og því hefðu fleiri en tíu mátt koma saman við afhendingu verðlaunanna“. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði sömu reglur gilda um útsendingar.

Af hálfu almannavarna var svarið skýrt: Samkvæmt gildandi takmörkunum áttu allir gestir að nota andlitsgrímu á atburðum sem þessum.

Lokaorðin í pistlinum hér voru:

„Húsráðandi átti auðvitað síðasta orðið um þetta eins og reyndist í Ásmundarsal og RÚV ætti að muna. Hvers vegna þennan leikaraskap?“

_dsc0853Myndin er af vefsíðunni forseti.is og sýnir gesti í Bessastaðastofu þriðjudaginn 25. janúar 2022 við afhendingu íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Nú hefur húsráðandinn Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, axlað ábyrgð og beðist afsökunar. Hann og starfslið hans hafi álitið að með nægu bili milli stóla mætti fella grímuna eftir að fólk settist „Ég ber fulla ábyrgð á því. Það var algjörlega okkar misskilningur og ég biðst afsökunar á því,“ segir forseti Íslands í Morgunblaðinu í dag (31. janúar).

Guðni segir að embætti hans hafi fengið þær upplýsingar frá Ríkisútvarpinu að útsendingin væri ekki á skjön við ákvæði um sóttvarnir. „Embætti forseta Íslands gaf bara leyfi, fyrir sína parta, að þessi viðburður yrði á Bessastöðum,“ segir Guðni.

Tilkynningu um ábyrgð sína birti forsetinn sunnudaginn 30. janúar. Morgunblaðið spurði hvers vegna hann hefði ekki gert það fyrr og forseti svarar:

„Þegar maður veit upp á sig sökina þá er það stundum þannig að maður leitar einhverra sökudólga einhvers staðar. Maður vonar líka að maður þurfi ekki að tjá sig. Svo þegar til kastanna kemur þá líður mér miklu betur með að hafa sagt að þetta voru mistök sem best er að gangast við. Svo verður maður bara að taka afleiðingunum af því.“

Hér skal engu spáð um hvort eða hvaða afleiðingar verða af þessu sóttvarnabroti. Miklu skiptir að það skuli upplýst.

Sóttvarnareglurnar valda vandræðum á tímapunkti þegar þær standast ef til vill ekki lög, yrði látið á það reyna. Nú birtast læknisfræðileg og lögfræðileg rök fyrir að ríkisstjórnin hafi að ráði sóttvarnayfirvalda stigið of varlega til jarðar með afléttingarskrefunum sem kynnt voru föstudaginn 28. janúar.

Ætla mætti að atvikið á Bessastöðum hafi farið fram hjá vandlætingarfullri fréttastofu ríkisútvarpsins. Er RÚV kannski vanhæft til að fjalla um málið vegna aðildar að brotinu? Það má þó biðjast afsökunar á ráðunum sem gefin voru úr Efstaleiti. Það geta fleiri verið stórmannlegir en forseti Íslands.