23.6.2023 10:56

Afrekshugur með virðisaukaskatti

Þá má skilja útdráttinn á þann veg að hefðu þeir í New York sem gáfu þrívíddarskönnunina staðið straum af kostnaði við gerð afsteypunnar hefði málið horft á annan veg við yfirskattanefnd.

Í Morgunblaðinu í dag (23. júní) birtist frétt um úrskurð yfirskattanefndar frá 24. maí 2023 og er hún reist á texta sem birtist á vefsíðu nefndarinnar þar sem segir að deilt hafi verið um hvort kæranda, félagasamtökum, bæri að greiða virðisaukaskatt (vsk) „vegna innflutnings á afsteypu af höggmynd eftir látinn listamann. Kærandi hafði keypt afsteypuna af eiganda listaverksins erlendis og fært sveitarfélagi að gjöf.“ Nefndin taldi undanþáguákvæði frá greiðslu vsk vegna innfluttra listaverka ekki eiga við í þessu tilviki. Þá hefði ekki verið um gjöf til sveitarfélags að ræða „enda hefði hinn erlendi eigandi listaverksins ekki staðið straum af kostnaði við gerð afsteypunnar, heldur kærandi sjálfur“, það er félagasamtökin.

Sá sem þekkir málavöxtu sér strax að útdrátturinn gefur ekki rétta mynd af því sem þarna var til úrskurðar.

353838329_1259089418052522_299622153857442537_nAfsteypan af Afrekshuga eftir Nínu Sæmundsson sem verður á Hvoslvelli. Hér afsteypan þar sem hún var gerð í Danmörku.

Hér er um að ræða listaverkið Afrekshug eftir Nínu Sæmundsson sem stendur yfir anddyri Waldorf Astoria hótelsins við Park Lane í New York. Þegar ráðist var í endurbætur á hótelbyggingunni fyrir nokkrum árum var styttan tekin niður. Þá var haft samband við eigendur hótelsins frá Hvolsvelli og spurt hvort leyfi fengist fyrir afsteypu af verkinu sem staðið hafði yfir anddyri hótelsins síðan Nína vann samkeppni um gerð listaverks fyrir það síðan 1930. Afsteypan yrði sett upp í heimabyggð listakonunnar. Leyfið fékkst.

Þrívíddarskönnun var send frá New York til Danmerkur þar sem afsteypan var gerð. Félag áhugamanna um framgang málsins stofnaði til almennrar fjársöfnunar til að standa straum af kostnaði við gerð afsteypunnar. Afsteypufyrirtækinu var greitt fyrir vinnu sína og höfundarréttargjöld voru greidd til Myndstefs. Kom það forráðamönnum styrktarfélagsins í opna skjöldu að þessi milliganga þess yrði til að það myndaðist skattstofn eins og staðfest var að lokum með úrskurði yfirskattanefndar.

Ekki var um nein kaup á listaverkinu eða sölu að ræða. Í útdrætti yfirskattanefndar á úrskurðinum segir að styrktarfélagið hafi „keypt afsteypuna af eiganda listaverksins erlendis og fært sveitarfélagi að gjöf“. Óskiljanlegt er hvernig höfundur útdráttarins kemst að þessari niðurstöðu. Styrktarfélagið eignaðist aldrei listaverkið og hefur aldrei litið á sig sem eiganda afsteypunnar heldur sé gjöfin og hafi ávallt verið eign sveitarfélagsins Rangárþings eystra. Hlutverk félagsins var að safna fé til að láta gjöfina „raungerast“ með því að kosta gerð afsteypunnar.

Þá má skilja útdráttinn á þann veg að hefðu þeir í New York sem gáfu þrívíddarskönnunina staðið straum af kostnaði við gerð afsteypunnar hefði málið horft á annan veg við yfirskattanefnd.

Samstarf einkaaðila og opinberra er almennt til þess fallið að stuðla að framförum og nýmælum. Yfirskattanefnd ýtir ekki undir slíkt samstarf í menningarmálum með þessum úrskurði sínum. Hann sýnir að til að njóta undanþáguákvæða vegna vsk af innfluttri höggmynd eftir látna íslenska listakonu eiga áhugasamir einkaaðilar ekki að láta að sér kveða og þarna hefði átt að óska eftir því að gefendur verksins kostuðu gerð afsteypu þess.

353772303_619654256808018_8018740887825861553_nStöpullinn undir Afrekshug rís á Hvolsvelli.

Hefði þannig verið staðið að málum væri ekki risinn stöpull undir Afrekshug á Hvolsvelli núna og styttan yrði ekki afhjúpuð þar 23. ágúst 2023. Fullyrt skal að án einkaframtaksins hefði þetta aldrei orðið.