9.7.2020 11:04

Áform um að Ægisif verði moska

Með því að breyta Ægisif í mosku og lifandi helgistað múslima að nýju framkvæmir Erdogan gamlan draum sinn og stuðningsmanna sinna úr röðum íhaldssamra múslima.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti vill breyta Hagía Sófia (Ægisif, Sófíukirkjunni, Kirkju heilagrar visku) í mosku að nýju. Jústiníanus, keisari í Miklagarði (Istanbúl), lét reisa Ægisif á árunum 532 til 537 e.Kr.. Hún var stærsta dómkirkja í heimi í hartnær þúsund ár, eða þar til dómkirkjan í Sevilla á Spáni var reist árið 1520. Ægisif var breytt í mosku árið af ottómönum árið 1453 og í safn árið 1935 af Mustafa Kemal Atatürk, leiðtoga Tyrkja, sem nútímavæddi þjóðfélagið með aðskilnaði trúar og veraldlegrar stjórnar. Erdogan vill auka veg íslam og hefur minnkað skilin milli stjórnmála og trúmála.

40234Loftmynd af Ægisif. Múslimar reistu minaretturnar, bænaturnana, á 15. öld.

Með því að breyta Ægisif í mosku og lifandi helgistað múslima að nýju framkvæmir Erdogan gamlan draum sinn og stuðningsmanna sinna úr röðum íhaldssamra múslima innan og utan Tyrklands. Alþjóðleg andstaða við áform Tyrklandsforseta magnast.

Grikkir sætta sig afar illa við að múslimar eigni sér alfarið Ægisif sem helgistað sinn. Þeir hafa lengi átt í útistöðum við Tyrki. Forystumenn stjórnmála og trúmála um heim allan láta í ljós óánægju með það sem fyrir Erdogan vakir. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í fjölbreyttum hópi gagnrýnenda þar sem einnig er að finna Kirill, patríarka rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu. Grikkir og Rússar eiga samleið innan rétttrúnaðarkirkjunnar sem á formlegt höfuðsetur í Miklagarði.

Þeir sem gagnrýna Erdogan á heimavelli segja að hann fari alltaf að tala um mosku í Ægisif þegar hann glími við erfiðan pólitískan vanda. Hann ýti þannig undir trúarlegan og þjóðernislegan baráttuanda stuðningsmanna sinna.

Erdogan var kjörinn borgarstjóri Istanbúl árið 1994 og sótti þangað pólitískan styrk þar til flokkur hans missti völdin í borginni í kosningum í fyrra. Í um 18 ár hefur hann haft undirtökin í tyrkneskum stjórnmálum. Nú hallar undan fæti og þá slær forsetinn á þjóðernislega trúarstrengi.

Tyrkneskur stjórnsýsludómstóll fjallar nú um hvort lýsa megi Ægisif mosku að nýju. Eftir að úrskurður dómaranna liggur fyrir er lokaákvörðunin í höndum Erdogans.

Ægisif er á heimsminjaskrá UNESCO og í fyrra heimsóttu hana 3,7 milljónir gesta. Þar eru einstakar miðalda mósaíkmyndir af Jesú Kristi, Maríu mey og Jóhannesi skírara auk mynda af keisurum og keisaraynjum.

17749672_401Mósaíkmynd af Mariu mey í Ægisif. Hún verður afmáð í mosku.

Eftir að múslimar lögðu kirkjuna undir sig afmáðu þeir mannamyndirnar í samræmi við kröfu trúar sinnar. Þær voru hins vegar endurheimtar þegar Ægisif var breytt í safn. Nú óttast verndarsinnar að ráðist verði að myndunum að nýju við breytingu safnsins í mosku.

Stuðningsmenn Erdogans og talsmenn þess að Ægisif verði breytt í mosku segja að byggingin sé þriðji helgasti staður múslima á eftir Stór-moskunni í Mecca og Al-Aqsa-moskunni í Jerúsalem. Það hefði aldrei átt að afhelga moskuna.

Ófriðarseggir nýta öll tækifæri til að ala á spennu og illindum. Að breyta Ægisif úr safni í mosku skapar slíkt tækifæri. Annarlegir hagsmunir eru að baki því að nýta Ægisif til að gera illt verra milli múslima og kristinna manna fyrir botni Miðjarðarhafs.