25.11.2023 9:39

Afmælissamtal við Ólaf Ragnar

Afmælissamtal Morgunblaðsins við Ólaf Ragnar er enn ein áminningin um að við lifum breytingartíma. Þekking á sögunni auðveldar skilning á því.

Það hefði þótt saga til næsta bæjar að ritstjórn Morgunblaðsins teldi það gleðja lesendur blaðsins að hefja hringferð sjónvarpssamtala um landið í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins með viðtali við Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta gerist þó nú árið 2023 eins og sjá má í blaðinu í dag (25. nóv.).

Ólafur Ragnar tekur gjarnan þannig til orða um eitthvað sem varðar hann sjálfan að þar gerist eitthvað „sögulegt“. Það orð má nota hér. Að stofnað sé til samtalsins sýnir sveigjanleika, umburðarlyndi og víðsýni ritstjórnar Morgunblaðsins og þá stöðu sem Ólafi Ragnari tókst að skapa sér sem forseti Íslands í 20 ár.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur var um tveggja áratuga skeið meðal áhrifamanna innan dyra í Alþýðubandalaginu. Hann var aðstoðarmaður tveggja ráðherra flokksins: Magnúsar Kjartanssonar iðnaðarráðherra í upphafi áttunda áratugarins og Ragnars Arnalds fjármálaráðherra í upphafi þess níunda. Undir lok níunda áratugarins hafði Ólafur Ragnar náð undirtökum í flokknum, óeining og óheilindi réðu ríkjum. Ólafur Ragnar myndaði vanheilagt bandalag við gömlu klíku sósíalistanna (sem enn ræður miklu innan VG). Þresti var nóg boðið og segir:

„Þó verð ég að segja í lokin að það voru ekki endilega óheilindin sem ýttu mér út úr flokknum, heldur sú útvatnaða afturhaldsstefna í landsmálum sem Ólafur Ragnar, nýr spámaður, fylgdi úr hlaði.“

Um þetta leyti urðu vatnaskil í Alþýðubandalaginu. Þröstur hvarf ekki einn á braut heldur fólk sem síðar komst til áhrifa innan Alþýðuflokksins eins og Össur Skarphéðinsson og Margrét S. Björnsdóttir. Þau unnu síðar að því að koma Samfylkingunni á fót. Þráðurinn milli Össurar og Ólafs Ragnars er þó enn óslitinn, að beggja sögn. Þeir hafa snúið sér að alþjóðaviðskiptum.

Screenshot-2023-11-25-at-09.37.51

Vinstrisinnar voru áfram klofnir með tilvist Vinstri-grænna (VG). Til vinstri við þá er síðan Sósíalistaflokkur Íslands undir hugmyndafræðilegri forystu Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi skósveins Baugsveldisins. Hann kallaði á Ólaf Ragnar sér til bjargar vorið 2004 vegna fjölmiðlafrumvarpsins sem Baugsliðar töldu stefnt gegn sér.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir í sérstakri frétt um viðtalið við Ólaf Ragnar að hann telji Ísland ekki eiga erindi í ESB. Í ljósi afstöðu Ólafs Ragnars til alþjóðamála í áranna rás er þetta ekki fréttnæmt. Hann hafði alltaf horn í síðu NATO, hann var andvígur aðild Íslands að EFTA og EES. Honum hefur löngum verið kært að boða viðhorf í utanríkismálum sem eru á skjön við viðtekna skipan alþjóðamála.

Í þeim anda bauð Ólafur Ragnar til hringborðs norðurslóða (Arctic Circle) í Hörpu fyrir 10 árum. Innrás Pútíns í Úkraínu kæfði þennan anda. Norðurslóðir eru ekki lengur lágspennusvæði heldur magnast hervæðing þar ár frá ári að frumkvæði Rússa eins og hollenski flotaforinginn Rob Bauer, formaður hermálanefndar NATO, sagði við hringborðið í Hörpu 14. október 2023.

Afmælissamtal Morgunblaðsins við Ólaf Ragnar er enn ein áminningin um að við lifum breytingartíma. Þekking á sögunni auðveldar skilning á því.