28.11.2022 9:29

Afmá verður Kínastimpilinn

Hver svo sem ástæðan er fyrir þessum Kínastimpli á Ísland ættu íslenskir stjórnmálamenn og sendimenn Íslands erlendis að leggja sig fram um að afmá hann.

Sú skoðun er undarlega lífseig víða að kínversk stjórnvöld hafi búið sérstaklega vel um sig á Íslandi og kínversk áhrif hér séu óeðlilega mikil. Um þetta má stundum lesa í erlendum blöðum eða tímaritum og þá fá Íslendingar sem taka þátt í alþjóðafundum og verkefnum oft spurningar í þessa veru.

Óljóst er hver ástæðan er fyrir þessum orðrómi. Sumir segja að hann megi rekja til einhverrar úttektar sem bandarísk hugveita birti fyrir nokkrum árum. Aðrir að ástæðan sé fríverslunarsamningurinn sem var gerður við Kína og Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu 15. apríl 2013 í Peking. Enn aðrir eru þeirrar skoðunar að þarna gæti áhrifa málflutnings Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. forseta Íslands.

43618.2e16d0ba.fill-1006x580-c100Í Peking 15. apríl 2013: Össur Skarphéðinsson ritar undir fríverslunarsamninginn við Kína, að baki honum er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Xi losaði sig við Wen. Um spillingu tendga honum má lesa í bókinni Rauð Rúlleta sem kom út á íslensku fyrr á þessu ári, Samfylkingin, flokkur Jóhönnu og Össurar, galt afhroð í kosningum skömmu eftir Kínaför þeirra.

Hver svo sem ástæðan er fyrir þessum Kínastimpli á Ísland ættu íslenskir stjórnmálamenn og sendimenn Íslands erlendis að leggja sig fram um að afmá hann.

Kínverjar hafa engin sérstök ítök hér. Um það leyti sem viðskiptasamningurinn var undirritaður var kínverski auðjöfurinn Huang Nubo gerður út af örkinni og naut stuðnings áhrifamanna í Samfylkingunni til að koma ár sinni fyrir borð með landakaupum. Áform hans runnu út í sandinn og áhugi hans á Íslandi varð að engu.

Áhrif af Huang-bröltinu má þó sjá í rannsóknastöðinni, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO), á Kárhóli í Reykjadal. Hún var formlega opnuð 22. október 2018 sem miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum, fjarkönnun og sjávarútvegsfræði.

Fréttir af starfsemi í rannsóknastöðinni eru litlar. Rúmu ári eftir að hún var formlega opnuð hófst COVID-faraldurinn í Kína sem lokaði landinu og hefur nú þremur árum síðar leitt til mestu fjöldamótmæla í Kína frá blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar í Peking sumarið 1989.

Xi Jinping var orðinn forseti Kína árið 2013 þegar Össur skrifaði undir fríverslunarsamninginn í Kína. Nú fyrir skömmu braut hann óskráða reglu sem varð til eftir dauða Maos formanns 1976 um að enginn skyldi leiða flokk og þjóð í Kína lengur en tvö kjörtímabil eða í 10 ár.

COVID-mótmælin sem hófust fyrir helgi í Kína eru í raun gegn Xi Jinping, stjórn hans og flokki. Mörgum þegna hans ofbýður valdagræðgin, ofstjórnin og lítilsvirðingin í garð almennra borgara.

Í tíð Xi hefur einræðisáráttan ekki aðeins aukist innan Kína heldur jafnframt hrokinn gagnvart öðrum þjóðum. Hér birtist hann meðal annars í því að íslenskur lögfræðingur var settur á svartan lista vegna skrifa sinna um Kína.

Fullt tilefni er fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til róttækra ráða til að þvo af sér Kínastimpilinn – til dæmis segja upp fríverslunarsamningnum eða loka stöðinni á Kárhóli.