Afhjúpar markmið Viðreisnar
Reiði Viðreisnar í garð Diljá Mistar er mikil af því að hún afhjúpar sjálfsblekkinguna innan flokksins í sjávarútvegsmálum, ýtir á blett sem er jafnvel viðkvæmari en evru-þráin.
Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir í grein á visir.is laugardaginn 21. ágúst að Ingvar Þóroddsson, háskólanemi sem skipar þriðja sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, hafi birt lofgerð um sjávarútvegsstefnu ESB á visir.is til að réttlæta ESB-aðildarstefnu Viðreisnar. Þessi stefna ESB er þó bæði fjandsamleg fiskistofnum og arðbærum sjávarútvegi.
Nú eru 10 ár síðan ESB-aðildarviðræðurnar undir forystu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra strönduðu á sjávarútvegsmálunum. Bilið var svo stórt á milli sjónarmiðanna sem lágu fyrir í íslenskum gögnum og því sem ESB að Brusselmenn lögðu aldrei fram umsögn sína um íslensku sjónarmiðin.
Diljá Mist vitnar í framvinduskýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá 16. október 2013 um aðildarumsókn Íslands. Skýrslu sem lögð var fram eftir að fylgið hafði hrunið af ESB-flokkunum Samfylkingu og VG í þingkosningunum vorið 2013. ESB beindir á bilið milli sjávarútvegsstefnu Íslands og réttarreglna ESB sem reistar eru á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Dilja Mist segir:
„Breyta þyrfti lögum um fiskveiðar í grundvallaratriðum við inngöngu í ESB. Viðreisn ber að koma hreint fram og viðurkenna þetta. Andstaða Viðreisnar við kvótakerfið stafar af því að fáeinir flokksmanna vita að það verður að afnema íslensku fiskveiðilöggjöfina til að greiða leiðina fyrir yfirráðum ESB yfir fiskimiðunum. Í þeirra huga er það að fórnarinnar virði. Það er illskiljanleg afstaða, en svona er staðan.“
Ingvar Þóroddsson biðst vægðar í grein á visir.is í dag, mánudaginn 23. ágúst, með þessum orðum: „Markmiðið með skrifunum [hans sjálfs] var einfaldlega að brjóta á bak aftur þá rökleysu að með inngöngu í ESB myndum við missa yfirráðin yfir íslenskum sjávarútvegi og miðin hér fyllast af evrópskum skipum.“
Þetta er þó einmitt það sem mundi gerast. Samkvæmt sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB yrðum við að sætta okkur við yfirþjóðlegar ákvarðanir í sjávarútvegsmálum. Vonir um einhverjar varanlegar undanþágur á gjöfulum fiskimiðum vegna þess að Maltverjar sitja einir að útgerð smábáta til strandveiða eru falsvonir. Settar fram í blekkingarskyni eins og alltof margt í ESB-málflutningi Viðreisnar.
Þennan 6.000 tonna verksmiðjutogara frá Litháen gátu Bretar rekið úr lögsögu sinni eftir úrsögnina úr ESB.
ESB-aðildarmálið er sígilt deilumál í íslenskum stjórnmálum. Einu sinni hefur verið send inn aðildarumsókn til Brussel. Klúðrið varð algjört af Íslands hálfu vegna lélegrar heimavinnu sem mótaðist af óskhyggju. Það er sorglegt að tíu árum síðar skuli enn róið á sömu mið án betri undirbúnings og skírskotunar til þess sem síðan hefur bæst við reynslubankann. Viðreisn vill ekki læra neitt af reynslunni í þessu máli heldur böðlast áfram í eigin blekkingarheimi.
Reiði Viðreisnar í garð Diljá Mistar er mikil af því að hún afhjúpar sjálfsblekkinguna innan flokksins í sjávarútvegsmálum, ýtir á blett sem er jafnvel viðkvæmari en evru-þráin.