16.7.2020 10:00

Afhjúpa þrýsting Huawei í Danmörku

Hér var fulltrúi Huawei í heimsókn á dögunum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara en fyrirtækið ræki 5G-farnet hér og yrðu Vestmannaeyjar fyrsti Huawei-5G-bletturinn á Íslandi fyrir milligöngu NOVA.

Danska blaðið Berlingske segir í dag (16. júlí) að kínverska fyrirtækið Huawei hafi ritað mörgum háttsettum embættismönnum í danska utanríkisráðuneytinu bréf til að knýja á um að jafnaðarmaðurinn Jeppe Kofod utanríkisráðherra ábyrgist skriflega að fyrirtækið verði ekki útilokað frá dönskum markaði.

Blaðamenn Berlingske segja að í bréfi til Lars Lose ráðuneytisstjóra standi að það kunni að hafa „skaðleg áhrif“ fyrir Huawei bregði dönsk yfirvöld fæti fyrir starfsemi þess í Danmörku.

Vitnað er í sérfræðing í hagsmunavörslu fyrir fyrirtæki og segir hann bréf Huawei „ógnandi“. Tommy Zwicky, upplýsingastjóri Huawei í Danmörku, segir þetta rangt, fyrirtækið hafi valið þessa leið til að kynna vöru sína.

Í maí 2020 boðaði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, að ríkisstjórn hennar myndi leggja fram frumvarp til laga þar sem tekið yrði af skarið um hvaða fyrirtæki gætu komið að 5G-farkerfisvæðingu í Danmörku. Tine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, sagði í júní 2020 að Danir vildu skipta við fyrirtæki í bandalagsríkjum sínum þegar hugað væri að kaupum á kritisk infrastrukur, það búnaði sem snerti þjóðaröryggi.

Vegna þessarar fréttar í Berlingske er vakin athygli á því á vefsíðunni altinget.is að Xukun Ji, aðstoðarforstjóri Huawei í Danmörku, skrifaði í maí 2020 bréf til Lars Lose ráðuneytisstjóra og fann að því að dönsk stjórnvöld hefðu tekið jafnharða afstöðu og forsætisráðherrann boðaði.

Vegna þessa bréfs er íhaldsmaðurinn Per Stig Møller (77 ára), fyrrverandi utanríkisráðherra, nefndur til sögu þessa máls, hann er kvæntur Xukun Ji hjá Huawei og Lars Lose var á sínum tíma ráherraritari hjá Per Stig Møller.

190227-2Myndin er af vefsíðu Huawei. Hún er tekin í Barcelona í febrúar 2019 í tengslum við Mobile World Congress. Margrét Tryggvadóttir, forstjóri NOVA, og Kenneth Fredriksen frá Huawei í Svíþjóð (fyrir miðju) staðfestu 5G-tilraunasamning Huawei og NOVA. Fredriksen var hér á dögunum til að fylgjast með framkvæmd samningsins og styrkja stöðu Huawei í landinu.

Í desember 2019 fór kínverski sendiherrann í Kaupmannahöfn til Þórshafnar í Færeyjum og sagði yfirvöldum þar að ættu þau ekki viðskipti við Huawei keyptu Kínverjar ekki af þeim fisk. Þykir þetta enn ein staðfesting á að Huawei sé einskonar dótturfyrirtæki kínverska ríkisins.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið af skarið á sama hátt og danska ríkisstjórnin. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði á hinn bóginn í Morgunblaðinu miðvikudaginn 15. júlí:

„Okkar afstaða hefur verið mjög skýr og hún breytist ekkert: Netöryggismál eru alvöru öryggismál og þjóðaröryggi er eitthvað sem við eigum alltaf að hafa í forgangi. Það er sömuleiðis þjóðaröryggismál fyrir Ísland að geta áfram átt greið fjarskipti við bandalagsríki og að þau líti á Ísland sem öruggt fjarskiptaumhverfi. Það er ekkert nýtt hvað okkur varðar.“

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að verði frumvarp til nýrra laga um fjarskipti samþykkt á haustþingi geti samgönguráðherra sett Huawei á Íslandi skorður með reglugerð.

Hér var fulltrúi Huawei í heimsókn á dögunum og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara en fyrirtækið ræki 5G-farnet hér og yrðu Vestmannaeyjar fyrsti Huawei-5G-bletturinn á Íslandi fyrir milligöngu NOVA.

Fréttirnar frá Danmörku sýna að Huawei beitir öllum ráðum til að koma ár sinni fyrir borð. Sundrung í stjórnmálum og meðal bandamanna er vatn á myllu þess.