Áfellisdómur yfir Kristrúnu
Þetta er vondur dómur yfir forsætisráðherra og ríkisstjórninni. Hvort hann kemst til skila fyrr en stjórnin fellur leiðir framtíðin í ljós.
Þeir sem fylgdust með því hvernig sagt var frá umræðum um veiðigjaldið í ríkisútvarpinu fengu fréttir um hve lengi var talað en ekki um hvað var talað. Þegar rætt var við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í Kastljósi sagðist hún vilja tala „hreint út“ um málið, það snerist um að ná skattalegu tangarhaldi á fjórum eða fimm fjölskyldum. Af hálfu ráðherrans var alið á þeirri lygi að þeir sem stæðu gegn frumvarpinu stæðu vörð um þessar fjölskyldur, þeir vildu ekki hækka auðlindagjaldið.
Andrea Sigurðardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem fylgdist með þingumræðum um veiðigjaldið á alþingi dregur saman höfuðatriði ágreiningsins í grein í blaðinu í dag (21. júlí).
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fór með rangt mál í ræðustól alþingis (mynd: mbl.is/Karitas).
Í upphafi greinarinnar vitnar Andrea í þessi orð Kristrúnar Frostadóttur í ræðustól alþingis um miðjan júní: „Það vita það allir hér inni að minnihlutinn vill banna meirihlutanum að hækka veiðigjöld. Það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst ekki um krónur og aura.“
Af kurteisi við forsætisráðherra segir Andrea að þessi „orðræða“ ráðherrans höggvi „nærri falsfréttastíl“. Sé hins vegar talað „hreint út“ eins og Kristrún sagði í Kastljósi er þetta ómenguð lygi hjá forsætisráðherra, flutt í ræðustól alþingis af því yfirlæti sem er stíll Kristrúnar og flokksins sem hún stýrir.
Andrea segir að með málflutningi sínum hafi stjórnarliðar nýtt sér „viðvarandi gremju í garð þeirra sem skapað hafa verðmæti með því að taka áhættu og fjárfesta í sjávarútvegi“.
Hún bendir á að þingmeirihlutinn hafi veitt takmarkað svigrúm til kynningar fyrir hagaðila og sniðið málefnalegri og upplýstri umræðu þröngan stakk. Stjórnarsinnar voru óvirkir í þingumræðunum.
Í málflutningi stjórnarandstöðunnar blasi við að enginn flokkanna þriggja – Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks eða Miðflokks – hafi sett sig upp á móti hækkun veiðigjalda, þvert á orð forsætisráðherra, segir Andrea og einnig:
„Gagnrýni stjórnarandstöðunnar laut einkum að því að vandað væri til verka, hægar væri farið í innleiðingu lagabreytinganna, vel væri staðið að samráði við sveitarfélög og aðra hagaðila, umsagnartími væri sanngjarn og ítarlegri greiningar og áhrifamöt unnin.“
Meginhluti umsagna hagaðila snerist um hættulegar afleiðingar þeirrar leiðar sem ríkisstjórnin valdi við að hækka auðlindagjaldið. Þar bar hæst áhyggjur sjávarútvegssveitarfélaga og forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem þjónusta útgerðarfyrirtæki og vinna að nýsköpun í sjávarútvegi. Á þessi sjónarmið var ekki hlustað fyrr en aðeins í blálokin og þá klóraði meirihlutinn í bakkann á misheppnaðan hátt.
Það er síðan mat okkar helsta hagfræðings á þessu sviði, Ragnars Árnasonar, fyrrverandi prófessors, að þeir sem njóti best þeirrar aðferðar sem stjórnin valdi við hækkun veiðigjaldsins séu útgerðirnar fjórar eða fimm sem Kristrún vildi knésetja.
Þetta er vondur dómur yfir forsætisráðherra og ríkisstjórninni. Hvort hann kemst til skila fyrr en stjórnin fellur leiðir framtíðin í ljós. Nú þegar ríkisstjórnin hefur vegferðina inn í ESB beitir hún einnig lygi og falsrökum, það breytist ekki.